Vaxandi spenna er á vinnumarkaði. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var ekki nema 2,2% í maí síðastliðnum samkvæmt tölum Hagstofunnar og hefur ekki verið lægra í átta ár, eða síðan í maí 2008. Þar að auki er atvinnuþátttaka að aukast. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka mældist 84,4% í apríl og hefur ekki verið meiri síðan í október 2006. Atvinnuþátttakan var á tímabili undir 80 prósentum og hefur fjöldi fólks utan vinnumarkaðar því minnkað um næstum því fjórðung frá því þegar staðan var verst.

Umframframboð á vinnuafli virðist því hafa þurrkast út á undanförnum misserum. Þrátt fyrir það spáir Seðlabankinn því að vinnustundum muni fjölga um 6,5% á árunum 2016 og 2017. Prósentutölur á borð við þessa eru oft í umræðunni og kunna að virka hversdagslegar – en til að setja þennan vöxt í samhengi jafngildir hann því að starfandi einstaklingum á Íslandi fjölgi um 12 þúsund á þessum tveimur árum ef meðalfjöldi vinnustunda á mann helst fastur.

Þúsundir nýrra starfa í ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan er líklega sú grein sem hefur verið fyrirferðarmest í umræðunni um fjölgun starfa. Á tímabilinu 2010-2015 fjölgaði starfsmönnum í aðalvinnu hjá gististöðum, veitingastöðum, í flutningum og geymslustarfsemi um samtals 5.500 miðað við tölur Hagstofunnar. Til samanburðar voru um 4.300 manns skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun í maí. Þótt meirihluti landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu virðast nokkurn veginn jafn mörg ný störf í ferðaþjónustu hafa orðið til á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .