Í kjölfar vaxtalækkunar Englandsbanka í síðustu viku og Seðlabanka Bandaríkjanna í þessari viku hefur vaxtamunur við útlönd aukist. Í Morgunkorni Glitnis segir að samhliða þessum vaxtalækkunum ytra hafa stýrivextir verið að hækka hér á landi en í byrjun nóvember hækkaði Seðlabankinn vexti um 0,25 prósentustig í 13,75%.

Næsti vaxtaákvörðunardagur er 20. desember næstkomandi. Greining Glitnis spáir óbreyttum vöxtum enn um sinn en í ljósi þeirra hagtalna sem birtar voru í vikunni er óvissan heldur upp á við og ekki er hægt að útiloka að bankastjórn Seðlabankans ákveði að hækka vexti á fimmtudaginn kemur.

Hagtölur sýna að auk þess sem verðbólga á síðasta fjórðungi ársins var meiri en þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands frá 1. nóvember gerði ráð fyrir þá benda tölur um landsframleiðslu á fyrstu þremur ársfjórðungum til meiri hagvaxtar á árinu en Seðlabankinn spáði. Hagvöxtur það sem af er ári er 2,7% en Seðlabankinn spáði 0,9% hagvexti á árinu. Líklegt er að mikill vaxtamunur við útlönd komi til með að styrkja krónuna á næstu mánuðum, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.