Bjarni Ármannsson hefur verið forstjóri Iceland Seafood í rúm tvö ár. Á þessum tíma hefur félagið verið skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar og vaxið með kaupum á fyrirtækjum.

Frjáls verslun
Frjáls verslun
Í ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar , sem kom út í morgun, segir Bjarni að stefnt sé að fleiri yfirtökum og að lögð verði áhersla á frekari sjálfvirknivæðingu í verksmiðjum félagsins.

Spurður hvort hann telji að fleiri félög sem tengist sjávarútvegi ættu að íhuga skráningu á markað svarar Bjarni: „Auðvitað er þetta alltaf ákvörðun eigendanna hverju sinni, hvernig þeir sjá hag sínum best borgið. Í upphafi aldarinnar voru mjög mörg sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markað og eftir smá tíma mátu eigendur þeirra stöðuna þannig að ekki væri nauðsynlegur áhugi til staðar til að meta fjárfestinguna með réttum hætti. Þess vegna held ég að það hafi verið rétt mat hjá þeim þá að afskrá félögin. Þau fengu til þess stuðning síns viðskiptabanka og sagan sýnir að þessir aðilar hafa náð að vinna vel úr sínum fjárfestingum. Að þessu sögðu þá er svarið í heildina tekið já. Ég myndi frekar vilja sjá fleiri fyrirtæki á markaðnum en færri en jafnframt viðurkenna að upp úr aldamótum var gengið of langt í að skrá þessi fyrirtæki á markað.

Ég fagna því áformum eigenda Síldarvinnslunnar að skrá félagið í Kauphöllina. Ég held að útvegurinn og frumvinnslan hafi gott af því að um þá starfsemi sé meira fjallað í fréttum, ekki bara kvótakerfið heldur umgjörðina alla. Á ég þá ekki einungis við fjárhagslega afkomu því skráning varpar ljósi á svo margt annað, til dæmis stjórnarhætti, umhverfismál og ábyrgð fyrirtækja gagnvart sínu nærumhverfi og hvernig fyrirtæki eru að þróast. Með skráningum verður til meiri þekking á sjávarútveginum og því sem honum tengist. Greiningar og samanburður á þessum fyrirtækjum hjálpar öllum að verða betri og standa sig í alþjóðlegri samkeppni.

Norðmenn eru komnir mjög langt í þessum efnum. Þeir eru nánast með allt laxeldi í heiminum á sínum snærum og hafa líka fjárfest í uppsjávargeiranum í Suður-Ameríku í verulegum mæli. Í Noregi eru allir innviðir til staðar. Norskir greiningaraðilar þekkja einstaka geira sjávarútvegsins betur en aðrir í heiminum, þeir eru með öfluga banka sem styðja við bakið þessum fyrirtækjum, bæði í að sækja áhættufé og lánsfé. Norsk fyrirtæki standa líka framarlega í tæknigeiranum, hvort sem það eru skipasmíðastöðvar eða fyrirtæki í hugbúnaðargeiranum, sem hjálpa við stjórnunarlega þætti og þess háttar.“

Nánar er rætt við Bjarna Ármannsson í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi hér .