Samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis mun Japansbanki tilkynna stýrivaxtaákvörðun sína á morgun en stýrivextir eru nú 0,5%. Vextir Japansbanka voru síðast hækkaðir í febrúar, um 0,25 prósentustig, og vænta markaðsaðilar ekki frekari vaxtahækkana á árinu.

Hagvaxtartölur fyrir þriðja ársfjórðung verða birtar í Japan í dag og er búist við að landsframleiðsla hafi aukist um 0,4% frá öðrum fjórðungi. Japansbanki birti endurskoðaðar hagvaxtar- og verðbólguspár til hálfs árs í lok október, og voru báðar spár endurskoðaðar niður á við. Öllu meiri athygli hlýtur væntanlega birting fundargerðar frá vaxtaákvörðunarfundinum á fimmtudag en hún sýnir skiptingu atkvæða peningastefnunefndar bankans og gæti gefið vísbendingu um tímasetningu næstu stýrivaxtahækkunar bankans.

Stýrivaxtatilkynningar er enn fremur að vænta frá Tyrklandi á miðvikudag, en vextir þar í landi eru nú 16,75% og þeir hæstu meðal ríkja sem hafa þróaðan fjármálamarkað. Ísland er með næst hæstu vextina, 13,75%. Verðbólga hefur farið minnkandi í Tyrklandi undanfarið og kæmi því ekki á óvart ef vextir þar í landi yrðu lækkaðir á miðvikudag.