Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kom heldur á óvart og hélt stýrivöxtum óbreyttum í dag segir í markaðspunktum Arion banka. Spár markaðsaðila gerðu ráð fyrir á bilinu 25-50 punkta hækkun. Greiningardeild Arion spáði 25 punkta hækkun.

Í markaðspunktum segir að greiningardeild Arion sé á þeirri skoðun að vaxtaákvörðunin í ágúst hafi verið mistök en að ákvörðunin í dag hafi verið rétt. "Hins vegar óttumst við að mistökin frá því í ágúst verði endurtekin á komandi fundum.

Misvísandi skilaboð

Nokkuð erfitt er að ráða af yfirlýsingunni á hvaða vegferð Seðlabankinn er í raun og veru, einkum þar sem mesta púðrinu er eytt í að réttlæta síðustu vaxtaákvörðun (í stað þess að verja þá nýjustu):

• „Nýjustu hagtölur staðfesta í meginatriðum uppfærða spá bankans, sem birtist í Peningamálum í ágúst“

• „Verðbólguhorfur benda þó til þess að til lengri tíma litið sé við hæfi að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar, eins og byrjað var á í ágúst.“

• „Lítil hætta er á að hófleg vaxtahækkun stöðvi efnahagsbatann.“

Því hlýtur að vera eðlilegt að spyrja sig af hverju bankinn hafi látið staðar numið eftir einungis eina 25 punkta vaxtahækkun. Einkum og sér í lagi ef meirihluti peningastefnunefndar líkir sér við þýska starfsbræður sína, sem myndu miða aðhaldsstig við horfur til meðallangs tíma.

Hræringar á erlendum mörkuðum vega þungt

Líkt og í síðustu yfirlýsingu víkur nefndin að hræringum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vísbendingum um veikari alþjóðlegan hagvöxt og áhrifum þessa á innlendan hagvöxt og verðbólguhorfur. Nú metur peninganefndin sem svo að hættan af neikvæðum áhrifum á innlendan þjóðarbúskap hafi aukist – og ekki verður annað séð en að hættan af óróanum erlendis sé einmitt meginástæða þess að bankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum að þessu sinni.

Þó eru aðrir skammtímaþættir tíundaðir í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem munu áfram verða áhrifavaldar við komandi vaxtaákvarðanir: „Minni verðbólga í ágúst en búist hafði verið við, áframhaldandi styrking gengis krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum gera að verkum að peningastefnunefndinni er kleift að halda óbreyttum stýrivöxtum nú“

Er stysti vaxtahækkunarferill sögunnar á enda?

Að því gefnu að krónan gefi ekki eftir á komandi mánuðum er útlit fyrir að ársverðbólgan gangi hratt niður á árinu 2012. Burtséð frá krónunni þá hafa verðbólguhorfur skánað að undanförnu sem helgast einkum af því að hagvaxtarhorfur úti í heima hafa versnað. Útlit er því fyrir að verðlækkanir muni fljótlega gera vart við sig á helstu hrávörumörkuðum sem munu á endanum skila sér hingað heim. Þá er ekki hægt að útiloka að efnahagsslakinn hér heima verði meiri en spár gera ráð fyrir einkum ef horfur í heimsbúskapnum fara ekki að skána fljótlega.