Stýrivextir Evrópska seðlabankans voru hækkaðir um 25 punkta og eru þeir nú 4,25%. Þetta er í fyrsta skipti í tólf mánuði sem Evrópski seðlabankinn hækkar stýrivexti en verðbólga mælist nú 4% sem er tvöfalt hærra en markmið bankans kveða á um. Jean-Claude Trichet seðlabankastjóri lagði áherslu á fundi um ákvörðunina að henni væri ætlað stemma stigu við vaxandi verðbólguvæntingar.

Undirliggjandi verðbólguþrýstingur er fyrst og fremst tilkominn vegna hækkana á orkuverði og matvælum og varaði Trichet framleiðendur sérstaklega við því að ýta þeim út í verðlagið enn frekar og hvatti launþega og atvinnurekendur að gæta hófs í kjaraviðræðum. Þessar áherslur seðlabankastjórans auk ummæla hans um hættuna sem stafar af samdrætti í hagvexti á evrusvæðinu þykja til marks um að ekki verið gripið til frekari stýrivaxtahækkana á næstunni.

Sumir sérfræðingar telja að með því að hækka vexti nú, þegar ljóst er að hægt hefur á hjólum atvinnulífsins á evrusvæðinu, sé Evrópski seðlabankinn að tryggja sig gegn því að verðbólga fari algjörlega úr böndunum.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .