Vaxtaálag skuldabréfa íslensku bankanna á evrópskum eftirmarkaði voru fremur stöðug á öðrum ársfjórðungi, en vaxtaálagið lá á bilinu 0,4%-0,7% á fjórðungnum, segir greiningardeild Landsbankans.

?Þrátt fyrir að álagið hafi lækkað frá því það fór hæst um miðjan mars sl. er það enn nokkuð hátt sé miðað við á síðasta ári þegar það var 0,2-0,3%. Svo virðist sem meira jafnvægi hafi náðst í kringum skuldabréf bankanna á öðrum ársfjórðungi," segir greiningardeildin.

Sú skoðun er leidd út frá tilkynningu Standard & Poor's um breytingar á horfum í neikvæðar, sem breytti litlu um álag skuldabréfanna. ?Ástæðuna má væntanlega rekja til þess að fjárfestar hafi verið búnir að verðleggja fréttina inn í álag bréfanna," segir greiningardeildin.

Vaxtaálag áfram hátt

Viðskiptabankarnir þrír skiluðu metafkomu á fyrsta ársfjórðungi og báru skuldabréf bankanna þess merki.

?Við reiknum með að bankarnir skili góðri afkomu á öðrum ársfjórðungi, afkomu sem undirstrikar góða grunnafkomu. Það sem erlendir fjárfestar koma til með að leita eftir í uppgjörum bankanna er meðal annars hversu vel þeir standast veikingu krónunnar, en krónan veiktist um 11% á öðrum ársfjórðungi," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin telur að vaxtaálag banka muni ekki lækka svo neinu nemi, fyrr en útséð er með framvindu efnahagsmála, sem og að bankarnir hafi sýnt að þeir standist álagið.

?Þessu til viðbótar tók matsfyrirtækið Moody's einkunn Kaupþings um fjárhagslegan styrkleika til endurskoðunar með mögulega lækkun í huga. Við teljum ekki líklegt að aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum breytist til hins betra fyrr en í fyrsta lagi í lok þessa árs," segir greiningardeildin.