Barn á leikskóla
Barn á leikskóla
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Vaxtabætur hækka um 6% milli ára og eru um 12 milljarðar. Til viðbótar kemur sérstök vaxtaniðurgreiðsla, þ.e. nýjar bætur sem ríflega 102 þúsund gjaldendur fá og nema 6,3 milljörðum. Alls eru því greiddir 18,3 milljarðar í bætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum.

Reglum um úthlutun vaxtabóta var breytt mjög í álagningunni í ár og tekin upp sérstök vaxtaniðurgreiðsla. Breytingunum á almennum vaxtabótum var ætlað að koma til móts við skuldugar fjölskyldur með lágar og meðaltekjur. Hámark heimilaðra vaxtagjalda var þannig hækkað mjög og tekur nú meira tillit til raunverulegra vaxtagjalda þjóðfélagshópa en áður. Hámark vaxtabóta var sömuleiðis hækkað. Á móti þessu var tekjuskerðing aukin. Ákvarðaðar almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2010, nema 12,0 milljörðum króna í ár. Almennar vaxtabætur fá 56.600 fjölskyldur.

Sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem nemur 0,6% af skuldum upp að hámarki sem er skert af eignum nemur samtals 6,3 milljörðum og hana fá næstum 103 þúsund einstaklingar. Stuðningur ríkisins við vaxtakostnað íbúðar­eigenda nemur þannig samtals 18,3 milljörðum, 30% af heildarvaxtakostnaði heimila í landinu vegna íbúðarkaupa, en hann var 60,2 milljarðar árið 2010.

Barnabætur

Barnabætur lækka hins vegar um tæpa tvo milljarða sem er 19,7% lækkun. Foreldrum sem fá reiknaðar barnabætur fækkar um 13.836 milli ára. Skýrist það af því að nú eru allar barnabætur tekjutengdar, en hluti bóta vegna barna yngri en sjö ára var það ekki áður. Tekjuskerðing vegna annarra barnabóta er líka aukin.

Reglum um barnabætur var breytt við álagninguna í ár. Nú var tekin upp tekjutenging á öllum barnabótum og tekjutenging vegna þeirra sem eiga eitt barn var hækkuð úr 2% af tekjum umfram viðmiðunarmörk í 3%. Nú verða greiddir út 8 milljarðar króna í barna­bætur til 20% færri fjölskyldna en var á fyrra ári meðan meðalbætur standa nokkurn veginn í stað.