Vaxtaberandi skuldir 365 hf. að frádregnu handbæru fé og peningamarkaðsbréfum nema 20.432 milljónum króna 1. október 2006, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fastafjármunir nema samtals 30.365 milljónum króna og veltufjármunir nema samtals 10.457. Eignir samtals eru 40.822 milljónir króna. Eigið fé nemur 8.170 milljónum króna.

Að mati stjórnar og stjórnenda er það forgangsverkefni að létta skuldastöðu félagsins og hefur þegar verið gripið til aðgerða til þess að ná því markmiði.

Gengið hefur verið frá samkomulagi við Landsbanka Íslands um að sölutryggja 64% eignarhlut 365 hf. í Daybreak Acquisitions Ltd, sem á 100% eignarhlut í Wyndeham Press Group.

Fyrir skiptingu Dagsbrúnar tók Vodafone yfir reksturinn á dreifikerfi Digital Ísland. Áhrif þess á efnahag 365 h.f. eru lækkun á vaxtaberandi skuldum að fjárhæð kr. 650 milljónir og lækkun á skuldum við tengda aðila um krónur 1.400 milljónir.

365 h.f. hefur komist að samkomulagi við Teymi hf. um sölu á hlut í Hands Holding fyrir jafnvirði 600 m.kr. sem mun verða ráðstafað til að lækka skuldir félagsins. Eignarhlutur 365 h.f. í félaginu verður um 30% eftir söluna.

Að loknum ofangreindum aðgerðum er gert ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir nemi um 8.099 milljónum króna.

Að auki stefnir 365 hf. að því á næstu 12 til 24 mánuðum að selja frá sér 36% eignarhlut í Daybreak Acquisitions sem ekki hefur verið sölutryggður.

Jafnframt stefnir félagið að því að selja frá sér 30% eignarhlut sinn í Hands Holding. Bókfært verð þessara eigna er samtals 5.612 milljónir króna. Félagið mun ráðstafa söluandvirði eignanna til lækkunar skulda.