*

sunnudagur, 29. mars 2020
Innlent 20. febrúar 2020 14:45

Vaxtadúfa í hauksham

Atkvæði Gylfa Zoëga gegn lækkun stýrivaxta fyrr í mánuðinum var nokkuð óvænt að mati aðalhagfræðings Íslandsbanka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ákvörðun Gylfa Zoëga um að greiða atkvæði gegn lækkun stýrivaxta á síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar var sú fyrsta í frá því í júní á síðasta ári þar sem meðlimir nefndarinnar eru ekki einróma sammála um vaxtaákvörðun. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Jón Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka. 

Segir Jón að mótatkvæði Gylfa hafi verið nokkuð óvænt þar sem hann hafi til skamms tíma fremur hallast á sveif lægri vaxta heldur en aðrir meðlimir nefndarinnar og segir að vaxtadúfa nefndarinnar hafi brugðið sér í hauksham. Þó er bent á að Gylfi hafi undanfarið viðrað svipaðar skoðanir og birtast í rökum nefndarmanna fyrir óbreyttum vöxtum í fundargerð vaxtaákvörðunarfundarins frá því fyrr í mánuðinum.

Helstu rök nefndarmanna fyrir óbreyttum vöxtum voru meðal annars að þrátt fyrir ð efnahagshorfur hefðu versnað væri innlent kostnaðarstig orðið hátt sem rekja mætti m.a. til mikilla launahækkana á undanförnum árum sem hefðu veikt samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreina og því þyrfti aðlögun þjóðarbúsins í auknu mæli að eiga sér stað í gegn um raunhagkerfið með kostnaðarlækkun og auknu atvinnuleysi. Lækkun meginvaxta myndi ein og sér ekki leysa þennan kostnaðarvanda heldur þyrfti m.a. að koma til lækkun raungengis. Á sama tíma ætti núverandi vaxtastig við þessar aðstæður að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta að því gefnu að innlent kostnaðarstig lækki. 

Samandregið túlkar greining Íslandsbanka þennan hluta röksemdarfærslunnar fyrir óbreyttum vöxtum á þann hátt að óhjákvæmilegt sé að mati einhverra nefndarmanna að niðursveifla eigi sér stað í hagkerfinu með talsverðri aukningu atvinnuleysis og/eða talsvert minni kaupmáttaraukningu en verið hefur undanfarin ár og að ekki sé hægt að beita peningastefnunni til að afstýra þessu. 

Þá virðist einnig litið fram hjá því að vextir Seðlabankans hafa væntanlega talsverð áhrif á raungengið, til dæmis í gegn um vaxtamun við útlönd og innbyrðis hvata til sparnaðar og fjárfestingar.

Rímar ekki við hagspá

Í pistlinum er  bent á að í fundargerðinni hafi komið fram að horfur væru á að launakostnaður á framleidda einingu myndi hækka nokkuð umfram verðbólgumarkmið á spátímanum og að Órói á vinnumarkaði hefði aukist að undanförnu auk þess sem enn ætti eftir að ljúka við hluta kjarasamninga opinberra starfsmanna. 

Að mati greiningar Íslandsbanka ríma þetta ekki alfarið við hagspá Seðlabankans sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun. 

„Í þeirri spá sé gert ráð fyrir þokkalegum hagvexti strax á næsta ári, myndarlegri aukningu á kaupmætti ráðstöfunartekna á komandi árum og svipuðu raungengi áfram og verið hefur undanfarna fjórðunga. Þá er því spáð að atvinnuleysi fari ekki að ráði yfir núverandi hlutfall og taki að hjaðna þegar kemur fram á næsta ár.

Síðast en ekki síst endurspeglar spá Seðlabankans ekki sérstakar áhyggjur af óhóflegum launakostnaðarþrýstingi þar sem verðbólga er í spánni undir 2,5% markmiði bankans fram á árið 2023.

Með öðrum orðum má segja að a.m.k. hluti nefndarmanna kjósi fremur að líta til þeirra raka úr hagspá Seðlabankans sem mæla með því að slaka ekki peningalegu aðhaldi um of (lítill framleiðsluslaki, áframhaldandi vöxtur eftirspurnar), en líti minna til þeirra þátta í spánni sem mæla með slökun vaxtaaðhalds (t.d. lítil verðbólga, stöðugt raungengi).“

Kalla eftir skýrari rökum

Jón Bjarki segir einnig að mikil áhersla nefndarinnar á kostnaðarþrýsting vegna launahækkunar og áhyggjur hennar af kjaradeilum komi á óvart sérstaklega vegna þess að þeir nefndamenn sem kynntu vaxtaákvörðunina hafi virst tregir við að tjá sig með afgerandi hætti um harðnandi tón í kjaradeilu Reykjavíkurborgar og Eflingar. 

Í pistlinum segir að ljóst með vera af fundargerðinni að nefndarmenn séu þeirrar skoðunar að launahækkanir umfram það sem samið var um í lífskjarasamningnum munu minnka vilja nefndarinnar til lækkunar vaxta þetta árið og koma frekar fram í meira atvinnuleysi þegar fram í sækir. 

Segir í greiningunni að gagnlegt hefði verið að umrædd rök kæmu skýrar fram þar sem ekki hafi farið mikið fyrir umræðu um mikillar hækkunar á launakostnaði og aukins atvinnuleysis í þeim kjaradeilum sem nú standa yfir.

Minni líkur á lækkun

Að lokum telur Jón Bjarki miðað við þann tón sem sé sleginn í fundargerðinni og þá þróun sem hafi átt sér stað frá síðustu ákvörðun virðist sem nokkuð hafi dregið úr líkum á að vextir verði lækkaðir á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 18. mars næstkomandi. Eftir sem áður er greining Íslandsbanka þeirrar skoðunar að talsverðar líkur séu á frekari lækkun vaxta á yfirstandandi ári.