*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 13. október 2019 14:14

Vaxtagjáin vaxið vegna bankaskatta

Munurinn á vaxtakjörum húsnæðislána bankanna og lífeyrissjóðanna hefur aukist mikið síðustu ár.

Júlíus Þór Halldórsson
vb.is

Lífeyrissjóðirnir hafa margir hverjir lánað sjóðsfélögum fyrir fasteignakaupum mjög lengi. Eins og sjá má á grafinu hér fyrir ofan hefur hins vegar orðið sprenging í útlánum þeirra síðustu ár. Frá ársbyrjun 2016 hafa þau aukist um 150% að raunvirði og nema nú hátt í 500 milljörðum króna. Þá hafa óverðtryggð lán verið að ryðja sér hratt til rúms yfir sama tímabil, og nema nú rúmum fimmtungi útistandandi lána lífeyrissjóðanna til heimila.

Annað sem einkennt hefur sama tímabil er að vaxtakjör lífeyrissjóðanna hafa orðið sífellt betri í samanburði við bankana. Um mitt ár 2017 munaði um 0,6 prósentustigum á bestu vaxtakjörum lífeyrissjóðs og banka fyrir verðtryggt lán með breytilegum vöxtum, á seinni hluta síðara árs hafði sá munur tvöfaldast og nam 1,2 prósentustigum.

Í dag nemur hann rúmum 1,6 prósentustigum, þar sem bestu lífeyrissjóðsvextir eru 1,64% hjá Birtu og Almenna, en Landsbankinn býður best af bönkunum, 3,25%. Öllu minni munur er hins vegar á óverðtryggðum vöxtum og föstum verðtryggðum. Lífeyrissjóðirnir hafa samhliða þessari útlánaaukningu hert nokkuð á lánakröfum til að stemma stigu við óhóflegum vexti eignaflokksins í eignasafni sínu.

Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna brá sem dæmi á það ráð í síðustu viku að hætta að lána á breytilegum verðtryggðum vöxtum í ljósi þess að sjóðsfélagalán höfðu vaxið úr 6% í 13% sem hlutfall af heildareignum sjóðsins frá 2015, formanni VR – sem nýlega tilnefndi nýja stjórnarmenn eftir að hafa afturkallað umboð þeirra fráfarandi vegna hækkunar vaxta sömu lána – til mikillar armæðu.

Síðasta stýrivaxtalækkun hefur því enn sem komið er ekki skilað sér í bættum lánakjörum sjóðanna, en bankarnir þrír hafa nú allir lækkað óverðtryggða útlánavexti sína.

Bankaskatturinn farinn að bíta
Haft var eftir Ásgeiri Jónssyni í fyrra, þá dósent í hagfræði og nú seðlabankastjóra, að nú þegar uppgjöri hrunmála sé lokið hjá bönkunum og reksturinn kominn í eðlilegt horf hafi skatturinn mikil áhrif. „Það eru raunar ekki bankarnir sem greiða skattinn, heldur þeir sem taka lán hjá bönkunum, bæði fólk og fyrirtæki.“

Bankarnir hafa sagt að hingað til hafi þeir forðast að velta bankaskattinum beint út í vaxtakjörin, þar sem lagt hafi verið upp með að hann yrði tímabundinn. Arðsemi þeirra var enda vel viðunandi á meðan matsbreytingar tengdar hrunmálum héldu henni uppi. Ef skatturinn sé kominn til að vera horfi málið hinsvegar öðruvísi við, þannig að vaxtamunur bankanna gæti aukist enn frekar.

Bankaskatturinn er ekki eini sértæki skatturinn á fjármálafyrirtæki hér á landi. Einnig er greiddur svokallaður fjársýsluskattur, sem lagður er á launakostnað sem ekki er virðisaukaskattskyldur og nemur 5,5%, og sérstakur fjársýsluskattur, sem nemur 6% og bætist við hefðbundinn tekjuskatt banka samkvæmt sama skattstofni. Auk sértækra skatta á banka hefur regluverkið einnig þrengt umtalsvert að útlánum bankanna nýverið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.