Heildargjöld ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins námu 318,8 milljörðum króna, sem er 3,7 milljörðum króna undir áætlun, en fjárlög gerðu ráð fyrir að heildarútgjöld yrðu 322,5 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Þá kemur fram að vaxtagjöld ríkissjóðs voru 2,3 milljörðum yfir áætlun og námu 13,7 milljörðum króna á tímabilinu.

Í vefritinu kemur fram að heildarútgjöld ríkissjóðs skiptast í fjóra flokka eftir eðli þeirra.

Rekstur stofnana er 468 milljónum króna yfir fjárheimildum og er heildarkostnaður 144,9 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

Undir rekstur stofnana fellur allur venjulegur rekstur stofnana á vegum ríkisins. Rekstrartilfærslur eru ýmis konar styrkir og bótagreiðslur sem greiddir eru úr ríkissjóði. Framlög til þessa málaliðar námu 132,8 milljörðum króna á tímabilinu og eru greiðslur 4,1 milljarði yfir heimildum.

Munar þar mestu að útgjöld til lífeyristrygginga hafa verið meiri en gert var ráð fyrir. Útgjöld til viðhalds- og stofnkostnaðar nema 27,4 milljörðum króna og eru 10,6 milljörðum króna innan ramma.