Vaxtagreiðslur til erlendra aðila, eða þeirra aðila sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi, verða skattlagðar, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Talið er að þessi breyting muni hafa í för með sér nokkrar skatttekjur fyrir ríkissjóð „en vegna tvísköttunarsamninga við flest þau lönd sem hýsa lánveitendur til íslenskra aðila er ekki líklegt að þær verði verulegar," segir í skýringum frumvarpsins.

„Hins vegar má reikna með að afleiðing ákvæða af þessu tagi dragi úr skattatapi vegna tekjuhliðrunar og undanskota," segir enn fremur.

Frumvarpinu var dreift á Alþingi í gær og má þar finna tillögur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrir hádegi.

Skattbyrðin ætti ekki að þyngjast

Í skýringum frumvarpsins um fyrrnefnda skattlagningu vaxtagreiðslna segir að vaxtatekjur íslenskra skattaðila, einstaklinga sem og fyrirtækja, séu skattskyldar. Ójafnræði felist þar með í því að undanskilja vaxtatekjur erlendra aðila skattlagningu.

Engar breytingar verði þó gerðar á skattlagningu vaxta til aðila í Norður- og Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum. Það sé ekki hægt vegna tvísköttunarsamninga sem gerðir hafa verið við þau ríki.

„Í nýrri samningum sem íslenska ríkið hefur gert er hins vegar í mörgum tilvikum gert ráð fyrir rétti upprunaríkisins til að leggja afdráttarskatt á vexti," segir í skýringum frumvarpsins. Því er bætt við að í slíkum tilvikum eigi  móttakendur vaxtanna rétt á endurgreiðslu eða frádrætti í sínu heimaríki.

Með því móti ætti skattbyrði móttakanda vaxtanna ekki að þyngjast.

Frumvarpið í heild má finna hér.