Seðlabankar Bretlands, Noregs og Sviss tilkynntu í morgun um vaxtahækkanir til að bregðast við hárri verðbólgu.

Englandsbanki, Seðlabanki Bretlands hækkaði vexti um 0,25% prósentur, úr 4,0% í 4,25%. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Englandsbanka kemur fram að sjö nefndarmenn hafi verið sammála 25 punkta hækkun en tveir vildu halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,0%.

Norges Bank, seðlabanki Noregs, hækkaði í morgun stýrivexti um 0,25 prósentur, úr 2,75% í 3,0% og gaf til kynna að von væri á frekari vaxtahækkun í maí. Jafnframt sagðist hann vænta ‏þess að vextir bankans verði í kringum 3,5% í sumar.

Swiss National Bank (SNB), seðlabanki Sviss, hækkaði vexti um hálfa prósentu í morgun, úr 1,0% í 1,5%. Um er að ræða fjórðu vaxtahækkun bankans í röð. Peningastefnunefnd bankans sagði að ekki væri hægt að útiloka frekari vaxtahækkanir til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma.

Verðbólga í febrúar:

  • Bretland: 10,4%
  • Noregur: 6,3%
  • Sviss: 3,4%