Seðlabankinn Stýrivaxtafundur 16.03.11 - 2
Seðlabankinn Stýrivaxtafundur 16.03.11 - 2
© BIG (VB MYND/BIG)
Vaxtahækkanir erlendis setja pressu á vexti hér á landi. Seðlabanki Íslands hefur oft sagt að hann fylgist grannt með áhættuleiðréttum vaxtamun við útlönd og hafa því vaxtahækkanir erlendis bein áhrif á þennan mun, og óbein áhrif á vaxtaákvarðanir hér á landi.

Þetta segir IFS Greining í nýrri greiningu sinni um stýrivaxtaákvarðanir í Evrópu. Evrópski Seðlabankinn ákvað í dag að hækka vexti um 25 punkta og standa þeir nú í 1,5%. Englandsbanki hélt vöxtum óbreyttum í 0,5%, þrátt fyrir ört hækkandi verðbólgu síðustu mánuði.

„Hlustað var af athygli á orð seðlabankastjóra Evrópu þegar hann útskýrði vaxtaákvörðun bankans og sérstaklega sýn bankans á efnahagsþróunina í Evrópu. Þótti hann gefa í skyn að vaxtahækkun í ágúst væri ólíkleg en væntingar á mörkuðum og orð seðlabankastjóra ECB virðast gefa til kynna að næstu vaxtahækkun sé að vænta í nóvember. Hann stendur enn fastur á því að ákjósanlegasta leiðin út úr skuldavandanum sé að skera niður ríkisútgjöld og hyggst ekki taka þátt í frekari skuldasöfnun með því að viðhalda lágum vöxtum,“ segir í umfjöllun IFS.

„Vöxtur peningamagns í umferð í Evrópu hefur aukist jafnt og þétt síðan hann náði lágmarki í ársbyrjun 2010 og nefnir bankinn það sem eina af ástæðum hækkunarinnar nú. Á sama tíma hefur peningamagn í umferð dregist saman í Bretlandi. Lágir vextir auka peningamagn í umferð og hvetja til fjárfestinga. Gæti það verið það sem Ísland þyrfti á að halda nú, þar sem peningamagn er enn að dragast hratt saman?“