Ken Rogoff, fyrrverandi yfirhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að skyndileg hækkun vaxta sé mesta hættan sem steðjar að alþjóðhagkerfinu. Þetta sagði hann í viðtali við BBC þar sem hann varaði við því að almenningur væri orðinn vanur lágu vaxtastigi.

Segir Rogoff að skuldsetning hafi aukist í heiminum og að vaxtahækkun gæti leitt til þess að skuldsettar þjóðir, einstaklingar og fyrirtæki geti lent í verulegum vandræðum. Rogoff sem er þekktur fyrir að hafa spáð fyrir um fjármálakreppuna árið 2008 sagði einnig að efnahagsstefna Donald Trump, Bandaríkjaforseta skapaði áhættu í hagkerfi heimsins.

„Hættan er sú að Hvíta húsið eða Bandaríkin almennt muni gera eitthvað mjög órökrétt. Þetta kunna að vera stórar yfirlýsingar frá mér en við höldum öll i okkur andanum," sagði Rogoff og bætti því við að ef það hefði ekki verið fyrir fjármálahrunið þá væri Donald Trump ekki forseti Bandaríkjanna í dag.