Evrópski seðlabankinn tilkynnti í gær að hann hugðist vinda ofan af skuldabréfakaupum fyrr en síðar til að búa til svigrúm til vaxtahækkana síðar á árinu.

Bankinn ætlar að ljúka skuldabréfakaupum vegna faraldursins í lok mars. Auk þess stefnir bankinn að því að vinda ofan af öðrum skuldabréfakaupum á þessu ári. Þannig munu mánaðarleg skuldabréfakaup seðlabankans nema 40 milljörðum evra í apríl, 30 milljörðum evra í maí og 20 milljörðum í júní. Í framhaldinu verða skuldabréfakaup bankans miðuð við verðbólguhorfur á evrusvæðinu.

Christine Lagarde, seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans, sagði á blaðamannafundi í gær, að skuldabréfakaupum bankans ljúki í síðasta lagi í september, en bankinn hefur keypt bréf síðastliðin sjö ár. Auk þess ætlar bankinn að hækka vexti síðar á árinu, þegar öllum skuldabréfakaupum hefur verið hætt.

Sjá einnig: 5,8% verðbólga á evrusvæðinu

Árleg verðbólga á evrusvæðinu mældist 5,8% í febrúar, en hún hefur aldrei verið mælst hærri. Þess má geta að verðbólgan mældist 0,9% fyrir rúmu ári síðan. Orkuverð hefur leitt áfram verðbólguna, en árshækkun orkuverðs mældist tæplega 32% í febrúar.

Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur aukið á verðbólguþrýstinginn. Um 40% af innflutningi ESB ríkja á jarðgasi kemur frá Rússlandi. Fjórðungur innflutnings ríkjanna á hráolíu kemur einnig frá Rússlandi. Sérfræðingar áætla að verð á gasi og olíu muni halda áfram að hækka í kjölfar innrásar Rússa og að verðbólgan á evrusvæðinu mælist yfir 6% í marsmánuði.