Eftir vísun áfrýjunarnefndar til Neytendastofu tekur stofnunin sömu ákvörðun á ný og segir vaxtahækkun Arion banka á fasteignaláni brjóta gegn góðum viðskiptaháttum. Bankinn hafi með breytingu á vöxtum neytendaláns á grundvelli ófullnægjandi vaxtabreytingarskilmála lánsins brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Hins vegar telur stofnunin ekki ástæðu til að grípa til aðgerða gagnvart bankanum, meðal annars því ekkert gefi til kynna að skilmálar nýrra sambærilegra lána eða skuldabréfa séu með sama hætti eða að upplýsingagjöf Arion banka í dag sé haldin sömu annmörkum og voru hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum meðan hann starfaði enn þá.

„Af þessum ástæðum, að teknu tilliti til samstarfsvilja Arion banka og með hliðsjón af niðurstöðu málsins sem og úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 5/2019 telur Neytendastofa ekki tilefni til að grípa til frekari aðgerða gagnvart Arion banka,“ segir m.a. um málið í ákvörðun Neytendastofu .

Jafnframt segir í ákvörðuninni að Frjálsi Fjárfestingarbankinn, sem veitti lánið upphaflega, hafi brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán með því að tilgreina ekki í skilmálum um endurskoðun vaxta á verðtryggðu veðskuldabréfi, við hvaða aðstæður vextir gætu breyst.

Neytendastofa tók upphaflegu ákvörðunina í málinu í júní árið 2019, en sú ákvörðun var kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála sem taldi að stofnunin ætti að taka afstöðu til afmarkaðs hluta kvörtunar um vaxtahækkun á fasteignaláninu sem gerð var í apríl 2015.

Um er að ræða fasteignalán sem tekið var árið 2005 með vaxtaendurskoðunarákvæði frá Frjálsa fjárfestingarbankanum, en lánið var síðar framselt til Arion banka sem tók yfir réttindi og skyldur lánsins sem nýr kröfuhafi. Kvörtunin fjallaði um upplýsingagjöf því ekki væri tekið tillit til verðbólga í greiðsluáætlun og útreikningum með láninu.

Jafnframt var kvartað yfir því að í skilmálum um vaxtaendurskoðun kæmi ekki fram við hvaða aðstæður vextir gætu breyst og að vaxtahækkun á grundvelli skilmálans í apríl 2015 hafi verið óhemil. Í ákvörðun Neytendastofu um sumarið komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að lánveitandi þurfti ekki að taka tillit til verðbóta í greiðsluáætlun og útreikningum lánsins.

Á hinn bóginn taldi Neytendastofa að skilmálar um vaxtaendurskoðun væru ófullnægjandi þar sem vísun til vaxta á nýjum sambærilegum lánum telst ekki fullnægjandi upplýsingar um aðstæður sem vaxtabreyting byggir á.

Viðskiptablaðið fjallaði um það á síðasta ári að Neytendasamtökin telja að gera þurfi grundvallarbreytingar á skilmálum svo til allra fasteignalána svo þau standist lög um að breytilegir vextir skuli ákvarðast af fastri og tæmandi reiknireglu í stað einhliða geðþóttaákvarðana.