Janet Yellen, bankastjóri Bandaríska seðlabankans, er vongóð um að hægt verði að hækka stýrivexti bankans fyrir lok þessa árs vegna batnandi atvinnuþátttöku, haldi sá bati áfram út árið. Þetta kemur fram í skýrslu hennar fyrir bandaríska þingið sem birt var í dag.

Þar kemur fram að þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið undir væntingum á fyrsta ársfjórðungi hafi vinnumarkaðurinn verið að þróast í átt að markmiði seðlabankans um fulla atvinnuþátttöku. Þá er verðbólga undir langtímavæntingum bankans en að sögn Yellen er það að mestu vegna skammvinnra áhrifa á borð við lækkun á olíuverði.

Þróun mála í Evrópu og Kína er mögulega til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á bandarískan hagvöxt að mati Yellen. Þá sagði hún í skýrslunni að útlit væri fyrir að Evrusvæðið hefði náð ákveðnum stöðugleika þrátt fyrir að ástandið í Grikklandi væri enn erfitt. Kína glímir enn við vandræði vegna hárrar skuldsetningar, veikra eignamarkaða og sveiflukenndra fjárhagsaðstæðna en að mati Yellen er útlit fyrir að hagvöxtur utan Bandaríkjanna muni verða framar vonum.

Til meðallangs tíma er peningastefnunefnd Bandaríska seðlabankans nokkuð bjartsýn á að verðbólga muni nálgast tveggja prósenta markmiði bankans. Haldi batinn áfram á vinnumarkaði er því Bandaríski seðlabankinn vongóður um að hægt verði að hækka stýrivexti á næstu mánuðum.

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild sinni.