*

laugardagur, 6. júní 2020
Erlent 2. nóvember 2017 12:43

Vaxtahækkun í fyrsta skipti í áratug

Englandsbanki hefur hækkað vexti um 0,25 prósentustig í samræmi við væntingar markaðsaðila.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Vextir í Bretlandi hafa verið hækkaðir í fyrsta skipti í  áratug úr 0,25% í 0,5%. Síðasta vaxtahækkun bankans var í júlí 2007. Hækkunin er í samræmi við væntingar markaðsaðila eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Sjö af níu nefndarmönnum peningastefnunefndar kusu að fara í vaxtahækkun að þessu sinni en í síðasta skipti sem Englandsbanki breytti vöxtum var það til lækkunar í kjölfar Brexit og þá um 0,25 prósentustig.

Í frétt á vef breska dagblaðsins Independent segir að Englandsbanki hafi hækkað vexti þrátt fyrir að laun hækki hægt og áhættan af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandsins án samninga aukist stöðugt.

Í fundargerð frá fundi peningastefnunefndar segir að verðbólguþrýstingur sé að myndast og lítill framleiðnivöxtur sé þrálátur. Nefndin tók jafnframt fram að áframhaldandi vaxtahækkanir yrðu takmarkaðar og myndu gerast smám saman. Samkvæmt verðlagningu á markaði búast markaðsaðilar ekki við næstu vaxtahækkun fyrr en á fyrsta fjórðungi ársins 2019.