Seðlabankinn ofmetur kostnað fyrirtækja af launahækkunum, en vanmetur kostnað af vaxtahækkun fyrir íslenskt atvinnulíf. Réttara hefði verið að bíða með vaxtahækkun um sinn. Þetta kemur fram í frétt sem birtist á vef Samtaka atvinnulífsins , þar sem bankinn er gagnrýndur fyrir að hafa farið of geyst í vaxtahækkunum.

Á vefsíðu SA segir meðal annars að Seðlabankinn telji að launavísitala muni hækka um 10,4% á milli ársmeðaltala 2014 og 2015, sem sé talsvert meira en áætlanir SA um 6,0-6,7% hækkun geri ráð fyrir. „Ef laun á almennum vinnumarkaði ættu að hækka um 10,4% milli ársmeðaltala þyrftu laun á almennum vinnumarkaði að hækka um allt að 15% á síðari hluta þessa árs, sem er vitanlega fráleitt," segir um þetta atriði á vefsíðu SA.

Þá segir að vaxtahækkun sé afar kostnaðarsöm fyrir íslenskt atvinnulíf, auk þess sem hækkun hvetji til frekari vaxtamunaviðskipta. „Á síðasta þensluskeiði var ítrekað varað við því að peningastefna Seðlabankans og framkvæmd hennar fæli í sér verulega hættu fyrir íslenskt hagkerfi. Of mikill vaxtamunur við helstu nágrannalönd okkar á tímum frjálsra fjármagnsflutninga leiddi til mikils innflæðis fjármagns og mikillar styrkingar íslensku krónunnar."