Um 295.000 ný störf urðu til í Bandaríkjunum í febrúarmánuði samkvæmt nýjustu tölum um atvinnuþáttöku þar í landi sem birtar voru í síðustu viku. Atvinnuleysi fór úr 5,7 prósentustigum niður í 5,5 prósent og hefur ekki verið lægra síðan í maí 2008. Atvinnuástandið í Bandaríkjunum hefur farið batnandi upp á síðkastið en um 266.000 ný störf hafa orðið til í hverjum mánuði að meðaltali síðastliðna tólf mánuði. Þessi bati hefur leitt af sér vangaveltur um hvort vænta megi þess að seðlabankinn hækki stýrivexti á næstunni.

Í nýlegu viðtali við Financial Times sagði James Bullard, bankastjóri seðlabankans í St. Louis, að slík hækkun væri orðin tímabær. „Við erum aðeins of sein í þessu ferli,“ sagði hann og vísaði til þess að atvinnuleysi hefði nú þegar náð langtímamarkmiði seðlabankans og að verðbólga, leiðrétt fyrir olíuverðslækkun, væri ekki langt frá því markmiði. „Ég held að við þurfum að grípa til aðgerða núna eða bráðum til þess að vera rétt stað- sett þegar hagkerfið heldur áfram að þróast,“ sagði Bullard.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .