Í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun eru leiddar að því líkur að Seðlabankinn muni líklega tilkynna um hækkun stýrivaxta sinna eftir lokun markaða á föstudag. "Vaxtahækkun um 25 til 50 punkta er að okkar mati líklegust. Bankinn mun gefa út ársfjórðungsrit sitt, Peningamál, á föstudag og þar mun hann lýsa skoðunum sínum á framvindu efnahagsmála í landinu og sennilega tilkynna hækkun stýrivaxta, eins og fyrr sagði. Bankinn hefur þegar hækkað vexti sína þrívegis á árinu, eða úr 5,3% í 6,25%, og margt mælir með frekari hækkun," segir í Morgunkorninu.

Þar segir ennfremur að hagvöxtur er mjög mikill um þessar mundir og meiri en gert hafði verið ráð fyrir, ekki síst vegna mikillar einkaneyslu. Verðbólga er yfir markmiði Seðlabankans og ógnar efri þolmörkum peningastefnunar þegar horft er fram á veginn. Hámark stóriðjuframkvæmda mun eiga sér stað á næstu tveimur árum og mun skapa aukin verðbólguþrýsting. Nýlegar hræringar á lánamarkaði og lækkun langtímavaxta eru einnig eftirspurnar- og verðbólguhvetjandi og kalla því á viðbrögð af hálfu bankans. Þá fer viðskiptahallinn vaxandi um þessar mundir.

"Á móti vegur að enginn bati virðist hafa átt sér stað á vinnumarkaði á árinu þrátt fyrir mikinn hagvöxt. Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi hefur aukist síðustu mánuði, þvert á spár. Að baki virðist liggja mikill framleiðnivöxtur og innflutningur á vinnuafli. Staðan á vinnumarkaði letur Seðlabankann því til vaxtahækkunar og vekur upp spurningar um hvort framleiðsluslaki ríki enn í hagkerfinu þrátt fyrir mikinn vöxt. Seðlabankinn þarf hins vegar að vera framsýnn við ákvörðunartöku sína þar sem vextir bíta á verðbólgu með mikilli töf og flest bendir til þess að verðbólga muni aukast á næstu tveimur árum og framleiðsluspenna muni ríkja í hagkerfinu," segir í Morgunkorninu.