Vaxtaákvörðunarnefnd Seðlabanka Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig í gær og eru vextirnir nú 1,25%. Almennt var vaxtahækkun af þessari stærðargráðu spáð í kjölfar fundar nefndarinnar í gær og því kom niðurstaðan ekki á óvart. Verðbólguþrýstingur virðist ekki vera mikill í Bandaríkjunum ef horft er framhjá eldsneytisverði. Hagvöxtur er hins vegar mikill og ekki er ólíklegt að kjarnaverðbólga aukist nokkuð þar í landi á næstu misserum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka í dag er bent á að í tilkynningu nefndarinnar er gefið til kynna að hættan á aukinni verðbólgu sé óveruleg. Nefndin tekur þó fram að vaxtahækkunarferillinn muni ráðast af þeim hagvísum sem berast á næstunni. Í Morgunkorninu er bent á að stýrivextir í Bandaríkjunum eru enn mjög lágir í sögulegu ljósi og talið er líklegt að vextir bankans verði aftur hækkaðir um 0,25 prósentustig í kjölfar fundar nefndarinnar í ágúst. Jákvæð viðbrögð voru við vaxtahækkuninni á skuldabréfamarkaði í gær og ávöxtunarkrafa á bandarískum ríkisbréfum lækkaði töluvert. Gengi dollara lækkaði lítillega gagnvart evru í kjölfar fréttarinnar en hefur hækkað á ný síðan. Þá varð óveruleg hækkun á verði hlutabréfa í S&P 500 vísitölunni í gær.