Almennt er reiknað með að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka stýrivexti sína í dag um 0,25 prósentustig en vextir bankans standa nú í 3,0%. Væntingar eru um enn frekari hækkun vaxta á næstu mánuðum. Fólgnir framvirkir vextir á peningamarkaði sýna til dæmis væntingar um að þriggja mánaða vextir muni standa í tæpum 4% í lok þessa árs segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í gær voru birtar endurskoðaðar tölur um hagvöxt í Bandaríkjunum á fyrsta fjórðungi ársins. Niðurstaðan var 3,8% hagvöxtur sem var lítillega umfram spár en á fjórðungnum á undan reyndist sami vöxtur. Mikil hækkun á húsnæðismarkaði og vöxtur útflutnings áttu þátt í hagvextinum. Þessar hagvaxtartölur eru taldar auka líkurnar á því að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig á vaxtaákvörðunarfundi sínum síðar í dag.