Seðlabankinn hefur nú hækkað vexti um 1%. "Hættan við þessa leið sem nú hefur verið valin er þríþætt. Í fyrsta lagi má nefna að sú gengishækkun sem hækkun stýrivaxta kallar fram er í rauninni frestun á verðbólgu sem mun koma fram þegar gengið leiðréttist. Í öðru lagi skapa frekari erlendar lántökur hættu á fjármálaóstöðugleika þegar fleiri aðilar hérlendis taka gengisáhættu. Í þriðja lagi er þrengt verulega að útflutningsatvinnuvegunum sem gæti haft tafið vöxt útflutnings þegar til framtíðar er litið," segir í Hálffimm fréttum.

Í nýútkomnum Peningamálum hækkaði Seðlabankinn vexti um 1% samhliða því að tilkynna um að gjaldeyriskaupum verði hætt í árslok. Þær ástæður sem raktar eru lánsfjárþensla, hækkun húsnæðisverðs, yfirvofandi stóriðjuframkvæmdir og ófullnægjandi aðhald í ríkisfjármálum. Ljóst er að þessi ákvörðun mun þrýsta gengi krónunnar upp í nýjar hæðir og hún sýnir bankinn hyggst beita genginu með ákveðnum hætti í miðlunarferli peningamálastefnunnar til þess að reyna að slá á þenslu og draga úr verðbólguvæntingum. En eins og nú er málum komið er aðeins um 20-30% af skuldum heimila og fyrirtækja í íslenskum breytilegum vöxtum. Meiri vaxtamunur mun gefa enn frekari hvata til erlendrar lántöku, en þó skyldi það tekið með í reikninginn að eftir því sem gengið rís hærra vakna einnig væntingar um gengislækkun sem vegur á móti. Ennfremur bendir hin skarpa hækkun til þess að Seðlabankinn hyggist reyna að þrengja að lausafjárstöðu bankakerfisins og þannig hægja á lánsfjárframboði segir í Hálfimm fréttum KB banka.