Vextir á nýju sambankaláni sem Landsvirkjun skrifaði undir í sumar eru tengdir sjálfbærnimarkmiðum sem félagið hefur sett sér. Fjármagnskostnaður mun þannig að hluta ráðast af því hversu vel eða illa Landsvirkjun tekst að ná markmiðum sínum í jafnréttismálum, heilsu- og öryggismálum og loftslagsmálum.

Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfbærnitengt lán af þessu tagi er veitt hér á landi,” segir Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður fjárstýringar Landsvirkjunar. „Fyrirtækið leggur áherslu á fjármögnun sem tengist sjálfbærni og var því spennt fyrir að fara þessa leið. Á síðasta ári tókum við fyrsta markvissa skrefið í þessa átt og gáfum út grænt skuldbréf fyrir 200 milljónir Bandaríkjadali. Stefnan er að tengja fjármögnun enn frekar sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð í framtíðinni,“ bætir hún við.

Um er að ræða veltilán að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmlega 18,5 milljörðum íslenskra króna. Lánið er fjölmynta og verður notað til almennrar fjárstýringar . Það veitir Landsvirkjun aðgengi að fjármunum sem fyrirtækið getur dregið á og endurgreitt eftir þörfum. Lánið er til þriggja ára með heimild til framlengingar tvisvar, um eitt ár í senn.

„Vaxtakjör nýja lánsins eru tengd árangri Landsvirkjunar við að uppfylla ákveðin viðmið tengd sjálfbærni. Viðmiðin endurspegla áherslur Landsvirkjunar á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru tengd umhverfi, jafnrétti og heilsu- og öryggismálum. Þriðji aðili metur og staðfestir árangur Landsvirkjunar í að uppfylla viðmiðin árlega.

Viðskiptabankar Landsvirkjunar veita lánið og voru breski bankann Barclays og sænski bankann SEB umsjónaraðilar. Aðrir þátttakendur í láninu eru ING Belgium SA/NV, Arion banki hf. og BNP Paribas ,“ segir Signý Sif.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .