Íbúðalánasjóður tilkynnti í dag að lokuðu útboði íbúðabréfaflokka HFF 44 og HFF 24 væri lokið. Alls bauð ÍLS íbúðabréf að fjárhæð 7,0 ma.kr. sem er töluvert hærri fjárhæð en reikna mátti með. Vegin heildar ávöxtunarkrafa útboðsins án þóknunar var 3,73% en 3,77% með þóknun sem er 14 punkta lækkun á kröfu frá síðasta útboði. Að því gefnu að ÍLS haldi um 60 punkta vaxtaálagi óbreyttu munu lánskjör ÍLS á ÍLS-veðbréfum lækka úr 4,5% í um 4,35% um næstu mánaðarmót segir í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans.

Þar segir ennfremur að það veki óneitanlega athygli að þau tvö íbúðabréfaútboð sem haldin hafa verið eru bæði lokuð og aðeins beint til erlendra fjárfesta. "Að sögn ÍLS var tilboða leitað hjá nokkrum erlendum bankastofnunum og var ákveðið öðru sinni að semja við Íslandsbanka í London en í fyrra útboðinu, sem haldið var 27. júlí sl., var samið við Deutche bank og Íslandsbanka í London. Íslenskum lífeyrissjóðum hefur þar af leiðandi ekki enn staðið til boða að taka þátt í íbúðabréfaútboði," segir í Vegvísi Landsbankans.

Íbúðalánasjóður boðar til kynningarfundar í dag kl. 16:30 þar sem farið verður yfir útboðsmál og endurskoðaða útlánaáætlun sjóðsins fyrir árið 2004.