Vaxtakjör Landsbanka Íslands á sambankalánamarkaði hafa versnað um 38% á einu ári, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en bankinn tryggði sér að minnsta kosti 500 milljónir evra (48 milljarðar íslenskra króna) á markaðinum í júní.

Landsbankinn fól bönkunum Banc of America, BayernLB, Deutsche Bank, Lloyds TSB og Royal Bank of Scotland að safna 300 milljónum evra (29 milljörðum íslenskra króna) en gífurleg umframeftirspurn hefur verið eftir láni bankans. Í tilkynningu Landsbankans segir að bankinn hafi þegar tryggt sér 500 milljónir evra í fyrsta fasa sölunnar og sérfræðingar búast við enn meiri eftirspurn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru vaxtakjörin 32,5 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, og hafa þau hækkað um 38%, eða um 12,5 punkta frá því að bankinn sótti 240 milljónir evra á sambankalánamarkað í fyrra. Sérfræðingar segja að hækkunina megi rekja til neikvæðra erlendra greininga á fjármálakerfinu og viðvaranir matsfyrirtækja um ofhitnum íslenska hagkerfsins.

Simon Penniston, sérfræðingur á sambankalánasviði Lloyds TSB, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að hann teldi Landsbankann samþykkja að greiða hærri vexti til þess að sýna fram á að mikil eftirspurn væri eftir pappír frá bankanum. "Þetta eru fáránleg kjör fyrir banka með A2 lánshæfismat," sagði Penniston.

Hann sagði ennfremur að hækkunina mætti rekja til ástandsins á íslenskum fjármálamarkaði og óvissu um íslenskt efnahagslíf, sem hefur fengið mikla umfjöllum í viðskiptapressunni víða um heim. Aðrir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið ræddi við sögðu að Landsbankinn hefði vel getað fengið betri kjör en bættu við að bankinn hefði áhuga á að sýna fjárfestum að hann ætti ekki í erfiðleikum með að selja skuldaviðurkenningar og að mikil eftirspurn væri eftir pappír bankans. Ekki náðist í Sigurjón Árnason, einn bankastjóra Landsbankans, þegar blaðið reyndi að ná tali af honum.

Kaupþing banki sótti 500 milljónir evra á sambankalánamarkað í mars, þegar umrótið var sem mest, en þrátt fyrir það var mikil spurn eftir láninu, sem var stækkað úr 250 milljónir evra í 500 milljónir. Lánið var í tveimur hlutum, til þriggja og fimm ára, og voru vaxtakjörin á þriggja ára láninu 17,5 punktar yfir EURIBOR og 23,5 punktar á fimm ára láninu.

Glitnir lokaði sambankaláni að virði 200 milljónir evra í júní til fimm ára. Lánakjörin voru 18 punktar yfir EURIBOR, sem eru hagstæðustu kjörin meðal íslensku bankanna þriggja. Í samanburði eru lánskjör Landsbanka Íslands mun óhagstæðari, en sérfræðingar benda á að bankinn sé með lakara lánshæfismat en Kaupþing og Glitnir. Bæði Kaupþing og Glitnir eru með lánshæfismatið A1 hjá Moody's Investors Service.

Sérfræðingar segja að íslensku bankarnir hafi sótt fjármagn í auknum mæli á sambankalánamarkað síðan fjárfestar, svokallaðir peningamarkaðssjóðir, í Bandaríkjunum neituðu að endurnýja skuldabréf sín í mars og myndaðist þá skarð í fjármögnun þeirra. Viðmælendur Viðskiptablaðsins eru sammála um að bankarnir hafi síðan unnið vel að því að kynna starfsemi sína fyrir erlendum aðilum og að matsfyrirtækin sjái ekki ástæðu til þess að lækka lánshæfismat þeirra.

Innlendir aðilar benda á að uppgjör bankanna hafi verið sterk og búist er við góðum uppgjörum á öðrum fjórðungi. Hins vegar hefur umfjöllunin haft þau áhrif að álag á skuldatryggingar (e. credit default swaps) eru enn óvenju hátt og bankarnir hafa því ekki treyst sér að sækja fjármagn á skuldabréfamarkaði.