Capacent telur að líkur á að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi dvínað á síðustu vikum. Raunar kemur fram í skuldabréfayfirliti Capacent að það séu jafnmiklar líkur á vaxtalækkun og að Ísland komist upp úr forkeppni Eurovision.

Helstu ástæður þessa er að hækkunarhraði fasteignaverðs hefur aukist mikið og að fréttir af fasteignamarkaði benda til ofhitnunar og að tölur Hagstofu Íslands um atvinnuleysi sína fram á að atvinnuleysi sé í sögulegu lágmarki. Eins og áður hefur komið fram er árstíðaleiðrétt atvinnuleysi nú 1,6% og hefur það einungis einu sinni verið lægra, en það var í febrúar 2007.

Aftur á móti bendir Capacent á að styrking krónu stafi nú fyrst og fremst af afgangi af viðskiptajöfnuði og sterkri stöðu þjóðarbúsins en ekki af erlendri lántöku og stöðutöku með krónunni líkt og fyrir hrun. Því myndi lækkun vaxta hafa takmörkuð áhrif til að draga úr innstreymi fjármagns. „Vaxtalækkun er frekar líkleg til að hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði og ýta undir hækkanir á hlutabréfaverði og ásókn í íslensk hlutabréf. Alls er óvíst að lækkun vaxta dragi úr styrkingu krónu eða leiti til veikingar hennar,“ segir í spá Capacent.

Enn fremur er bent á að á móti kemur að trúverðugleiki peningastefnunnar hafi aukist sem hefur berlega komið fram í lágum verðbólguvæntingum. „Einnig ætti jákvæður viðskiptajöfnuður, jákvæð erlend eignastaða og meiri þjóðhagslegur sparnaður að leiða til lægra náttúrulegs vaxtastigs,“ er tekið fram.

Capacent er hvorki sérlega bjartsýnt á vaxtalækkun né að Íslands komist upp úr forkeppni Eurovision. „[..] jafnvel þótt slíkar skoðanir stappi nær landráðum,“ segir að lokum.