Greiningardeild MP banka telur að erfitt sé að rökstyðja miklar stýrivaxtalækkanir þrátt fyrir verulegan slaka í hagkerfinu. Líklegast verði ákveðið að lækka vexti næstkomandi miðvikudag um 0,25 prósentur og þá verði einnig gefið til kynna að hugsanlega sé vaxtalækkunarferlinu þar með lokið.

Í spá sinni bendir greiningardeildin á að frá síðustu vaxtaákvörðun í desember hefur krónan veikst um 4% en verðbólga haldið áfram að hjaðna í takt við spá Seðlabankans. Á síðasta fundi Peningastefnunefndar var bóka að enn kynni að vera „ „eitthvert svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og hjaðni verðbólga eins og spáð er“.

Síðan þá hefur krónan veikst um 4% en verðbólga hefur haldið áfram að hjaðna í takt við spá Seðlabankans. Við mat á verðbólguþróun í þessu samhengi  er rétt að horfa fram hjá þeirri 0,4% lækkun sem stafar af því að afnotagjald ríkisútvarpsins var fært niður í 0 kr. í mælingu Hagstofunnar í mánuðinum. Af þessum ástæðum er því á mörkunum að hægt sé að rökstyðja frekari slökun peningalegs aðhalds,“ segir í spánni.

Þarf að auka gjaldeyriskaup

Að mati greiningardeildar MP banka þarf Seðlabankinn fljótlega að auka kaup sín á gjaldeyris sem getur leitt til frekari veikingar gengisins á árinu, og þar með kynt undir verðbólgu ef ekki verður brugðist við með vaxtahækkunum. „Einnig er töluverð hætta á að samið verði um töluverðar launahækkanir í yfirstandandi kjarasamningum sem munu þá líklega leita skjótt út í verðlag. Þá heldur innflutningsverð áfram að hækka vegna hækkandi hrávöruverðs og olíuverðs auk þess sem verðbólga er að aukast í mörgum helstu viðskiptalöndum. Það eru því töluverðar líkur á vaxandi kostnaðarverðbólgu þegar líður á árið.“

Þá er bent á að óvissa fylgi afléttingu hafta:

„Þá er rétt að minna á að efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýkur í haust. Þau gjaldeyrishöft sem sett voru á tímabundið sem neyðarráðstöfun til þess að sporna við fjármagnsflótta í hruninu haustið 2008 eru hluti af þeirri efnahagsáætlun og verða afnumin þegar henni lýkur. Þótt deilt sé um gagnsemi gjaldeyrishafta við það að stuðla að efnahagsbata eftir gjaldeyriskreppur þá er almennt talið að til lengri tíma séu slík höft mjög skaðleg fyrir efnahagslífið. Seðlabankastjóri hefur boðað nýja áætlun um afnám haftanna sem verði kynnt eftir um það bil mánuð. Við eigum von á að slík áætlun verði í mörgum skrefum og gæti jafnvel tekið nokkur ár. Það er alltaf erfitt að aflétta höftum þar sem því fylgir ákveðin óvissa. En því veikara sem gengið er og því hærri sem vextir eru þegar höftum er aflétt því minna verður áfallið.“