Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður undirritað samkomlag milli Akureyrarbæjar og Sparisjóðs Norðlendinga um vaxtalaus listaverkalán sem einstaklingar geta nýtt til kaupa á listaverkum og listmunum. Gallerí á Akureyri og einstakir listamenn sem þar eiga verk til sölu eru einnig aðilar að samkomulaginu.

Menningarsjóður Akureyrarbæjar og Sparisjóður Norðlendinga leggja hvor um sig ákveðna upphæð í sjóð sem nýttur er til niðurgreiðslu á vöxtum, en galleríin og listamennirnir veita afslátt af þóknun sinni í sama skyni.
Listaverkin verða að vera eftir núlifandi listamenn og aðeins er mögulegt að fá lán þegar um frumsölu verka er að ræða. Verkin mega ekki vera eldri en 60 ára við kaup. Lágmarksfjárhæð listmunaláns miðast við 36.000 kr. og hámarksfjárhæð við 600.000 kr. Útborgun er að lágmarki 10% af verði listaverks. Lánstími er að hámarki 3 ár en hægt er að greiða upp lánið hvenær sem er.

Markmiðið er með samkomulaginu er að hleypa lífi í listaverkamarkaðinn á Akureyri og að auðvelda einstaklingum að auðga líf sitt með verkum eftir lifandi listamenn. Undirritunin fer fram á Vorkomu menningarmálanefndar sem haldin verður í Ketilhúsinu kl. 16.00 á morgun.