Þrátt fyrir hraðar vaxtalækkanir bandaríska seðlabankans, sem að óbreyttu ættu að mynda þrýsting á gengi dollars, hafa væntingar manna til styrkingar myntarinnar aukist nokkuð.

Í Hálf fimm fréttum Kaupþings segir að ástæðuna megi rekja til þess að dollarinn hefur verið mjög veikur gagnvart evru upp á síðkastið og lækkun stýrivaxta ætti að hleypa lífi í bandarískt hagkerfi sem stuðla ætti að auknum útflutningi. Hefur dollarinn styrkst nokkuð síðan hann var hvað lægstur gagnvart evru en í nóvember var hann við 1,5 EUR/USD markið. Spá sumir markaðsaðilar að gengið verði komið í allt að 1,36 EUR/USD í lok árs.

Hið opinbera hleypur undir bagga

Styrkingarfasi dollars eftir hraða stýrivaxtalækkun bandaríska seðlabankans er ekki óþekkt fyrirbrigði en sama gerðist í byrjun árs 2001. Eitt af því sem helst glæðir vonir manna um að útlitið fyrir bandarískt efnahagslíf sé ekki svo svart er áætlun ráðamanna að veita auknum fjármunum í innlenda efnahagsaðstoð. Áætlað er að lækka skatta á fyrirtæki (tekjuskattur nú um 39%, mismunandi eftir fylkjum), heimili skulu fá hluta skattgreiðslna endurgreiddan og uppbygging húsnæðislánamarkaðarins verður styrkt svo eitthvað sé nefnt segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.