Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði í kvöld vexti sína um 25 punkta í 4,25% og hélt opnum möguleikanum á frekari lækkunum síðar. Lækkunin, sem er sú þriðja frá því í september, var samþykkt með níu atkvæðum gegn einu í vaxtaákvörðunarnefndinni. Einn nefndarmanna vildi sjá 50 punkta lækkun, að því er fram kemur í WSJ. Lækkunin er í samræmi við spár markaðsaðila en engu að síður lækkuðu hlutabréf eftir að ákvörðunin var tilkynnt. WSJ segir það stafa af því að margir fjárfestar hafi búist við meiri lækkun.

Fram kom hjá Seðlabankanum að nú dragi úr hagvexti vegna vaxandi leiðréttingar á húsnæðismarkaði og samdrætti í útgjöldum fyrirtækja og einstaklinga. Um leið sé enn nokkur verðbólguhætta yfirvofandi vegna hærra verðs á orku og neysluvörum.