Seðlabanki Tyrklands lækkaði stýrivexti í gær um 0,50 prósentustig í 15,75%. Í Morgunkorni Glitnis segir að vextir séu hvergi hærri í heiminum þegar litið er til ríkja með þróaðan fjármálamarkað en næst hæstu vextirnir eru á Íslandi (13,75%) en aðeins 2% skilja nú á milli Íslands og Tyrklands.

Samkvæmt Morgunkorninu var Tyrklandsbanki ekki eini seðlabankinn sem tók ákvörðun um vexti í vikunni en Seðlabankinn í Sviss tilkynnti um óbreytta vexti í gær og standa  vextir þar eftir sem áður í 2,75%. Þá lækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna vexti um 0,25 prósentustig á þriðjudaginn í 4,25%.