"Verðbólga hefur hjaðnað en þó nokkru hægar en gert var ráð fyrir í spá bankans síðan í mars," sagði Davíð Oddsson Seðlabankastjóri í morgun þegar hann rökstuddi þá ákvörðun bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 14,25%. "Undirliggjandi verðbólga er enn langt yfir verðbólgumarkmiði bankans og við teljum verðbólguhorfur til lengri tíma litið vera óbeyttar frá síðustu spá okkar," bætti hann við. "Samkvæmt þeirr spá ættu svigrúm að geta myndast fyrir vaxtalækkun undir lok þessa árs,"  sagði Davíð. Hann sló þá þann varnagla á að verðbólguhorfur hafa vissulega versnað undanfarið og að verðbólga á milli mánaða í maí hafi hækkað meira en búist var við. "Ef sú þróun heldur áfram og verðbólguþrýstingur eykst þá munum við bregðast  við," sagði Davíð.

Aðspurður hvort að  úrslit kosninganna hafi einhver áhrif á ákvarðanir bankans sagði hann svo ekki vera. "Við höldum okkar stjórn óháð því hvaða stjórn er í landinu. Vissulega vonumst við þó til að ný stjórn hafi sama markmið og við og vilja koma á stöðugleika og leggja réttan grunn fyrir hagvöxt og velsæld," sagði Davíð.