Björgvin G. Sigurðsson, formaður efnahags - og skattanefndar Alþingis, sagði á Alþingi í dag að ríkisstjórnarflokkarnir væru bjartsýnir á að vaxtalækkunarferli gæti hafist jafnvel innan fárra daga. Spálíkön sem unnið væri eftir gerðu ráð fyrir því að stýrivextir yrðu komnir niður í fimm til sex prósent við árslok.

Þetta kom fram í svari Björgvins við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

„Samfylking og ríkisstjórnarflokkarnir styðja það báðir eindregið að vaxtalækkunarferli hefjist hið allra fyrsta og við erum bjartsýn á að núna strax í kjölfar úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðunni á samkomulagi [AGS og stjórnvalda] og á efnahagslífinu íslenska, hefjist vaxtalækkunarferli - jafnvel innan einhverra fárra daga," sagði hann.

Gríðarlega mikilvægt væri, sagði hann, að þetta gengi eftir.

Vill vita hvort ríkisstjórnin hafi óskað eftir vaxtalækkun

Eygló sagði að háir stýrivextir væru að sliga íslensk heimili og fyrirtæki. Ekkert væri því til fyrirstöðu að hefja vaxtalækkunarferli. Það væri enda ein af aðaltillögum framsóknarmanna til aðgerða til hjálpar efnahagslífinu.

„Í stöðuskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í desember kom fram að Seðlabankinn hefði óskað eftir því við sjóðinn að hefja vaxtalækkunarferlið þá þegar en engin svör hafi borist frá sjóðnum," sagði hún.

Auk þess hefði lítið heyrst frá ríkisstjórnarflokkunum um sama efni, bæði frá þeim sem sátu í síðustu ríkisstjórn og þeirri ríkisstjórn sem Samfylkingin leiddi nú.

Hún spurði því næst hvort ríkisstjórnin hefði sent erindi til AGS um lækkun stýrivaxta.

Engin svör fengust hins vegar frá viðskiptaráðherranum fyrrverandi, Björgvin G. Sigurðssyni.