Vaxtastefna Seðlabanka Íslands, sem frá árinu 2004 einkenndist af síhækkandi vöxtum og miklum vaxtamun milli Íslands og helstu viðskiptalanda, var frá upphafi röng og gat ekki endað öðruvísi en með efnahagslegu bakslagi. Þetta er mat Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands og aðalmanns í bankaráði Seðlabankans. „Vaxtatækinu var beitt með þeim hætti að erlent fjármagn var laðað til landsins. Vextirnir voru hærri hér en í viðskiptalöndunum, fjármagn streymdi því til landsins og leiddi til gengishækkunarinnar sem varð,“ segir Ragnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann bendir á að með þessum hætti hafi styrking gengisins dregið úr verðbólgunni. Það sé í samræmi við markmið Seðlabankans. En á sama tíma versnaði skuldastaða þjóðarbúsins. „Á meðan óhæfilegt bil er milli erlendra og innlendra vaxta safnast upp erlendar skuldir. Það gerðist í auknum mæli á þessu tímabili. Fyrr eða síðar gerist það að áhyggjur erlendra fjárfesta aukast, til dæmis vegna skuldastöðunnar. Þá er aðeins tvennt til, aðstreymi fjármagns minnkar og gengið lækkar eða vextir eru hækkaðir enn frekar.“

Vaxtastefnan verðbólguvaldur

Í október á síðasta ári birti Ragnar grein um orsakir efnahagshrunsins og þátt peningastefnu Seðlabankans. Þar setur hann fram líkan sem er gert til að skýra „það samhengi sem Seðlabankinn virðist ekki hafa áttað sig á í peningastefnu sinni“. Það er samband vaxta, gengis og erlendra skulda. Ragnar lýsir þróun stýrivaxta frá árinu 2004 og hvernig þeir hækkuðu nær fimmfalt á fjögurra ára tímabili. Samhliða óx vaxtamunur stórlega.

Í greininni sýnir hann fram á að sé vaxtamunur aukinn er einfaldlega hagkvæmara að fjármagna innlend gjöld með erlendu fé fremur en innlendu. Því muni erlendar skuldir vaxa sem veldur því að vaxtagreiðslur til útlanda verða hærri. Til að fjármagna þær, þegar kemur að skuldadögum, verði raungengi krónunnar að lækka. Því sé gengisveiking óhjákvæmilegur fylgifiskur stöðugs vaxtamunar við útlönd.

Ragnar lýsir sömuleiðis hvernig ferlið, það er veiking krónunnar í kjölfar mikils vaxtamunar, veldur verðbólgu. Á meðan gengið styrkist dregur það úr verðbólgu, en þegar það tekur að veikjast aftur eykst verðbólgan á nýjan leik. Að mati Ragnars er eini hugsanlegi ávinningurinn af stýrivaxtahækkunum tímabundin lækkun verðbólgu, sem er skammæ. Aðrar afleiðingar hafi verið aukin erlend skuldsetning og lægra raungengi krónunnar til lengri tíma litið. Lækkun raungengis skapi á hinn bóginn verðbólgu, sem sé þveröfugt við það sem stefnt er að með vaxtahækkuninni. „Sé vaxtastefnunni haldið til streitu getur afleiðingin orðið efnahagslegt hrun. Þetta er ekki aðeins fræðilegar niðurstöður. Þetta er það sem gerðist í raun,“ segir í lokaorðum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.