*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 15. janúar 2017 09:02

Vaxtamöguleikar í milliríkjaviðskiptum

Robert C. Barber, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir að það felist vaxtamöguleikar í milliríkjaviðskiptum milli landanna tveggja.

Pétur Gunnarsson
„Fyrirtæki á borð við Kerecis hafa með hjálp bandaríska sendiráðsins haslað sér völl þar.“
Haraldur Guðjónsson

Robert C. Barber, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir að milliríkjaviðskipti milli Bandaríkjanna og Íslands hafi verið eitt af hans áhugasviðum meðan á dvöl hans stóð. „Viðskipti á milli ríkjanna tveggja er málefni sem ég hef mikinn áhuga á og gæti haft áhuga á í framtíðinni. Bandaríkin geta til dæmis virkað sem góð uppspretta fjármagns fyrir íslensk fyrirtæki. Þegar fjármagnshöftunum verður aflétt, að hluta eða að fullu, held ég að það sé möguleiki sem hægt sé að nýta sér. Það eru talsverðar erlendar fjárfestingar sem eiga sér stað á milli ríkjanna tveggja og talsvert af verkefnum í bígerð. Til marks um það er hótelið Marriot sem verður byggt við Hörpu og uppbyggingarsvæðið sem verður til í kringum það. Annað dæmi er möguleikar Silicor Materials og milljarðs dollara fjárfesting í Hvalfirði.

Það eru dæmi um hluti sem eru í bígerð eða við það að gerast. Þetta eru bara nokkur dæmi um hvernig Bandaríkin geta fjárfest hér innanlands,“ segir Barber. Hann bætir við að meðan á dvöl hans stóð, hafi til að mynda bandarísk vörumerki rutt sér til rúms hér á landi. „Ein af fyrstu embættisskyldum mínum eftir að ég kom til Íslands var að klippa á borðann við athöfnina þegar Tesla kynnti vörur sínar hér á landi. Ég væri hæstánægður með að sjá fleiri bandaríska bíla hér á landi, og þá sér í lagi bíla sem nýta sér endurnýjanlega orku. Það væri gott fyrir Bandaríkin og það væri gott fyrir Ísland.“

Sjávarklasinn fyrirmynd

Sendiherrann telur að það séu talsverðir möguleikar fyrir íslenskt hugvit og vörur í Bandaríkjunum, ef létt er haldið á spöðunum. „Ég hef séð dæmi um það þar sem við í sendiráðinu höfum til að mynda hjálpað til með, þar sem efnahagsteymið hefur unnið að því að hvetja til efnahagssamstarfs milli ríkjanna tveggja. Það sem ég er hvað spenntastur yfir hvað varð- ar þennan íslenska frumkvöðlaanda, er hátt hlutfall sprotafyrirtækja sem verða til hér á landi,“ tekur Barber fram.

„Eitt af mest spennandi fyrirtækjunum sem ég hef fengið að kynnast af eigin raun er Íslenski sjávarklasinn, sem vinnur að því að fullnýta íslenskar sjávarafurðum. Það eru vaxtarmöguleikar fyrir frekara samstarf milli íslenskra og bandarískra fyrirtækja, sama hvort það séu vörur, tækni eða þekking sem íslensk fyrirtæki geta flutt til Bandaríkjanna. Sjávarklasinn er bara eitt gott dæmi sem hefur þessa möguleika. Það er eitthvað sem Bandaríkin gætu haft not fyrir. Þar sem Bandaríkjamenn eru um þúsund sinnum fleiri en Íslendingar getur það verið ákjósanlegur markaður,“ bætir Barber við. „Fyrirtæki á borð við Kerecis hafa með hjálp bandaríska sendiráðsins haslað sér völl þar. Það fór til að mynda út á ráðstefnu til Washington í mars 2015. Starfsmenn hjá sendiráðinu hjálpuðu til við að kynna vöruna fyrir fyrirtækjum, fjárfestum og spítölum í Bandaríkjunum. Þetta eru bara örfá dæmi sem ég hef kynnst sem eru framleidd hér á landi sem höfða til alþjóðamarkaðs- og bandaríska markaðarins,“ segir Barber.

Viðskiptasamband drifið áfram af einstaklingum

Spurður hvort samskipti ríkjanna kæmu til með að breytast vegna stjórnarskiptanna í Bandaríkjunum, segir Barber að sé ómögulegt fyrir hann að spá til um það. „Það er augljóslega breyting á stjórn. Ég geri ekki ráð fyrir því að viðskiptasambandið milli ríkjanna tveggja breytist. Það viðskiptasamband er að mestu leyti drifið áfram af einstaklingum en ekki ríkisvaldinu. Það er einstaklinga og fyrirtækja að mynda tengsl. Varðandi Donald Trump, þá hefur hann starfað í einkageiranum allt sitt líf og hefur unnið með fyrirtækjum utan Bandaríkjanna.

Ég get ekki séð fram á miklar breytingar í næstunni hvað þetta varðar. Ég hef mikla trú á því að þau muni einungis vaxa og dafna þegar fram líða stundir,“ segir Barber.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.