Vaxtatekjur að frádregnum vaxtagjöldum, nefnt hreinar vaxtatekjur, sem hlutfall af heildareignum hafa ekki verið lægri hjá kerfislega mikilvægu bönkunum frá árinu 2013. Á fyrri hluta ársins 2020 nam téð hlutfall 2,6% hjá áðurnefndum bönkum í heild sinni. Á fyrri hluta síðasta árs var hlutfallið 0,2 prósentustigum hærra.

Árið 2019 nam hlutfallið 2,7% en það var að jafnaði 2,9% á árunum 2016 til 2018 en eilítið lægra á árunum 2013 til 2015. Þetta er á meðal þess sem lesa má úr ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands birtir.

Á þriðja ársfjórðungi þessa árs voru hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af heildareignum hjá viðskiptabönkunum þremur hæstar hjá Arion banka, 2,9% samanborið við 2,6% á sama fjórðungi árið áður. Hlutfallið nam 2,5% hjá Íslandsbanka og lækkaði um 0,3 prósentustig milli ára en var 2,6% á fyrstu níu mánuðum ársins.

Á þriðja ársfjórðungi 2020 var hlutfallið lægst hjá Landsbankanum eða 2,4% og var það um 0,3 prósentustigum lægra en á sama tímabili fyrra árs. Vert er að taka fram að vaxtamunur bankanna sem hlutfall af heildareignum lækkar er útlán bankanna aukast, að því gefnu að hreinar vaxtatekjur haldist óbreyttar.

Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, segir að vaxtamunur hjá viðskiptabönkunum muni líklegast halda áfram að lækka á næstu árum. Bankarnir hafi verið að hagræða töluvert, meðal annars með aukinni áherslu á tækni og rafræn viðskipti sem skilar sér til að mynda í færri útibúum. Sömuleiðis hafi starfsmönnum fjármálafyrirtækja tekið að fækka. Yngvi segir að slíkar hagræðingar skili sér í lægra kostnaðarhlutfalli og því svigrúm til lægri vaxtamunar en ella.

Enn fremur bendir Yngvi á að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, oftast nefndur bankaskattur, taki að lækka um næstu áramót. Þá mun skatturinn lækka úr 0,376% af skuldum bankanna í 0,145% eða um ríflega 60% í einu skrefi. Á síðasta ári stóð til að lækka bankaskattinn í fjórum jöfnum skrefum á árunum 2020 til 2023 en sökum heimsfaraldursins var ákveðið að flýta þróuninni.

Útlánsvextir lækkað um allt að helming

Útlánakjör hjá viðskiptabönkunum þremur hafa batnað til muna á undanförnum árum. Samkvæmt gögnum Aurbjargar voru útlánsvextir óverðtryggðra breytilega húsnæðislána í upphafi árs 2018 frá 5,6%-5,75%. Um þær mundir voru stýrivextir Seðlabanka Íslands 4,25% en hafa síðan tekið að lækka – hvað mest á þessu ári – og standa í 0,75% í lok árs 2020. Útlánsvextir hafa sömuleiðis lækkað og eru vextir téðs láns hjá viðskiptabönkunum nú um mundir 3,3%- 3,44% og hafa því lækkað um 40% á rúmlega tveimur árum.

Vextir á verðtryggðum húsnæðislánum með breytilegum vöxtum voru 3,65% hjá þeim viðskiptabönkum sem buðu upp á slík lán í upphafi árs 2018. Nú um mundir eru vextirnir á þeim lánum 1,9%-2,7%. Landsbankinn er með hagstæðustu kjörin á þessum tilteknu lánum og hafa útlánakjör bankans lækkað um 48% frá upphafi árs 2018. Arion banki bauð einnig upp á slíkt lán fyrir tveimur árum og hafa kjör bankans batnað um fjórðung á téðu tímabili.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .