Samhliða tíðum vaxtahækkunum Seðlabanka Íslands hefur munur á innlendum og erlendum skammtímavöxtum aukist hratt að undanförnu og hefur munurinn ekki verið jafn mikill síðan í ágúst 2002 eða fyrir rúmum 2 árum síðan. Munur þriggja mánaða reibor vaxta og sambærilegra vaxta í helstu skuldamyntum stendur nú í 4,4 prósentustigum og hefur aukist um heilt prósentustig frá því að bankinn hóf vaxtahækkunarferil sinn í byrjun maí.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að aukinn munur innlendra og erlendra vaxta gerir það álitlegra að taka stöðu með krónunni. Þannig þarf krónan að lækka um ríflega 0,9% á næstu þremur mánuðum til að stöðutaka með henni borgi sig ekki til þess tíma. Gengisvísitalan þarf með öðrum orðum að fara yfir 125,26 á næstu þremur mánuðum til þess að stöðutaka með krónunni borgi sig ekki. Til tólf mánaða þarf gengi krónunnar að lækka um ríflega 4,0% og gengisvísitalan að fara í 128,7 til þess að stöðutaka með krónunni borgi sig ekki til þess tíma. Í ljósi efnahagsaðstæðna má telja ólíklegt að krónan muni lækka svo mikið á þeim tíma. Það er þó ekki útilokað og einkum er sú hætta bundin við fjárfestingar innlendra aðila erlendis sem gætu orðið talsvert miklar á næstunni. Þó mikill munur innlendra og erlendra skammtímavaxta geri það álitlegt um þessar mundir að taka stöðu með krónunni er ljóst að slík stöðutaka er nokkuð áhættusöm.