Úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á vaxtaþróun sýnir að húsnæðisvextir lánastofnana hafa lækkað mikið síðasta eitt og hálfa árið, á tímabilinu 1. janúar 2019 til 7. júní 2020. Á tímabilinu hafa stýrivextir lækkað um 3,5 prósentustig, úr 4,5% í 1% og hafa þeir aldrei verið lægri.

Þrátt fyrir miklar vaxtalækkanir hefur munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum vöxtum af húsnæðislánum í mörgum tilfellum aukist á tímabilinu og því hafa lántakendur húsnæðislána að jafnaði ekki notið góðs af lækkun stýrivaxta að fullu.

Sem dæmi um aukinn vaxtamun má nefna að í byrjun tímabils var 1,5 prósentustiga munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum Landsbankans og Íslandsbanka en í dag er munurinn kominn upp í 2,5 prósentustig hjá Landsbankanum og 2,7% hjá Íslandsbanka. Í byrjun tímabils var 2,1 prósentustiga munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum hjá Arion banka en er í dag 2,54 prósentustig.

Lífeyrissjóðurinn Birta er undantekning þar sem munur á stýrivöxtum og óverðtryggðum breytilegum vöxtum sjóðsins hefur haldist 1,1 prósentustig allt tímabilið. Óverðtryggðir breytilegir vextir sjóðsins hafa því lækkað jafn mikið og stýrivextir, um 3,5 prósentustig úr 5,6% í 2,10%.

Viðskiptabankarnir hafa í sumum tilfellum tekist að bjóða upp á betri vaxtakjör en lífeyrissjóðirnir, sem er öfugt við það sem áður var. Slíkt mætti teljast áhugavert í ljósi þess að viðskiptabankarnir þurfa að greiða sérstaka skatta sem falla á fjármálafyrirtæki og uppfylla reglur um eiginfjárkröfur.