*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 18. maí 2017 16:07

Vaxtamunur verður að minnka

Framkvæmdastjóri SA segir að ef aðhald ríkisfjármála væri meira hefði vaxtalækkun Seðlabankans getað orðið stærri.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir vaxtaákvörðunina jákvæða sem tímabært fyrsta skref í vaxtalækkunarferli. „Við höfum kallað eftir vaxtalækkun í talsverðan tíma,“ segir Halldór Benjamín.

„Aðhald peningastefnunnar hefur aukist samhliða lítilli verðbólgu, sem skapaði svigrúm til lækkunar stýrivaxta að þessu sinni. Innflæði fjármagns vegna mikils vaxtamunar hefur einnig sett þrýsting á gengi krónunnar, en veruleg styrking krónunnar skapar augljósa hættu fyrir þjóðarbúið.

Þessi vaxtalækkun er því löngu tímabær og vonandi er þetta liður í því ferli að lækka vexti og minnka vaxtamun við útlönd enn frekar. Þetta er jákvætt, lítið skref, en þessu verður að fylgja eftir.

Í raun hefði vaxtalækkunin getað verið stærri ef aðhaldið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára hefði verið meira. Vaxtalækkunin breytir þó væntingum og sálarástandi á markaði og það skiptir máli. Við brýnum Seðlabankann til áframhaldandi vaxtalækkunar og teljum að skilyrði séu til staðar til að gera það.“

Of lítil vaxtalækkun segja forsvarsmenn ferðaþjónustunnar

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og forstjóri Bláa lónsins, fagnar vaxtalækkun peningastefnunefndar.
„Ég fagna því að Seðlabankinn sé loksins að sjá ljósið og ber þá von í brjósti að þetta sé upphafið að vaxtalækkunarferli, sem er atvinnulífi og almenningi lífsnauðsynlegt,“ segir Grímur.

„Áframhaldandi gengisstyrking krónunnar vegna innflæðis af erlendum gjaldeyri frá erlendum fjárfestum kemur sér illa fyrir ferðaþjónustuna, aðrar útflutningsgreinar og hagkerfið í heild. Til lengri tíma litið er þessi vaxtalækkun allt of lítil og ef vel á að vera þarf að bæta í.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is