Breska tölvuleikjafyrirtækið Lockwood Publishing, sem stofnað var af Íslendingnum Haraldi Þór Björnssyni árið 2009, skilaði 293 þúsund punda tapi á síðasta rekstrarári, eða sem nemur um 51 milljón króna. Viðsnúningur varð á rekstri fyrirtækisins frá fyrra ári er hagnaður þess nam ríflega 2,8 milljónum punda, sem nemur um 489 milljónum króna. Tekjur Lockwood jukust þó um 30% milli ára, úr 22,4 milljónum punda (3,9 milljörðum króna) í 29,3 milljónir punda (5,1 milljarð króna). Samanlagður sölu- og stjórnunarkostnaður jókst að sama skapi verulega, eða úr 20,8 milljónum punda í 32,7 milljónir punda.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins, sem nær yfir tímabilið 1. apríl 2020 til 31. mars 2021, segir að afkoma ársins hafi litast af fjárfestingu fyrirtækisins til framtíðar. Haldið hafi verið áfram að bæta við starfsmönnum, þá sérstaklega í lykilstöður tengdar vélfræði og þróun, sem styðja á við að langtímamarkmið fyrirtækisins náist. Má því segja að skammtímahagnaði hafi verið fórnað til að freista þess að ná framtíðarvaxtarmarkmiðum. Starfsmenn voru 217 talsins í lok síðasta rekstrarárs, þann 31. mars 2021, en undir lok rekstrarársins þar á undan voru starfsmenn 127.
Tuttugu sagt upp nýverið
Í síðustu viku greindi tölvuleikjamiðillinn gamesindurstry.biz þó frá því að 20 starfsmönnum hefði verið sagt upp störfum hjá Lockwood. Í frétt tölvuleikjamiðilsins er vísað til tilkynningar fyrirtækisins þar sem ástæður uppsagnanna eru sagðar vera vegna áhrifa heimsfaraldursins. Er þar vitnað í fyrrnefndan Harald sem segir fyrirtækið hafa tvöfaldað starfsmannafjölda samhliða miklum vexti þess. Faraldurinn hafi aftur á móti hægt á vaxtarferlinu og fyrirtækið hafi því þurft að endurskoða áætlanir sínar. Hluti af því hafi falist í að minnka starfsmannafjöldann. Lagði hann áherslu á að fyrirtækið hefði verndað eins mörg störf og það hafði tök á, auk þess sem leitast yrði eftir að endurráða þá sem sagt var upp er svigrúm myndaðist. Ákvörðunin hafi verið tekin með það í huga að tryggja framtíð fyrirtækisins.
Tilefni ofangreindrar tilkynningar voru fréttir þess efnis að verkalýðsfélag starfsmannanna teldi uppsagnir þeirra ólöglegar þar sem starfsmenn hefðu ekki verið upplýstir um uppsagnirnar á fundi þar sem trúnaðarmaður starfsmanna var viðstaddur. Í ofangreindri tilkynningu segir Haraldur að brugðist hafi verið við ábendingum verkalýðsfélagsins og kveðst hann ánægður með aðkomu þess að málinu.
Björgólfur, Davíð og Hilmar Veigar meðal eigenda
Í skýrslu stjórnar segir jafnframt að ráðist hafi verið í 25 milljón dala fjármögnunarlotu til að styrkja efnahagsreikning fyrirtækisins. Meðal fjárfesta sem tóku þátt í fjármögnunarlotunni var kínverski tölvuleikjarisinn Tencent, en þegar þetta er skrifað nemur markaðsvirði félagsins 572 milljörðum dala. Fyrirtækið er skráð á hlutabréfamarkað í Hong Kong en eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er Tencent 11. verðmætasta skráða félag heims.
Íslandstengingar eru mun víðar í Lockwood Publishing heldur en einungis hjá stofnandanum. Árið 2019 fjárfesti Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, í tölvuleikjafyrirtækinu og sama ár fjárfesti Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, einnig í fyrirtækinu. Ári áður fjárfesti Davíð Helgason, einn stofnenda Unity, sömuleiðis í fyrirtækinu í gegnum félagið Foobar Technologies II. Af þeim sex sem sitja í stjórn Lockwood eru fjórir Íslendingar. Fyrrnefndur Haraldur Þór, sem jafnframt er forstjóri félagsins, situr í stjórninni. Davíð Helgason gerir það sömuleiðis. Þá situr Birgir Ragnarsson, meðeigandi Novator, í stjórninni, auk Andra Sveinssonar sem starfaði um langt skeið hjá Novator.
Snjallsímaleikur með 200 milljónir notenda
Lockwood Publishing var eins og fyrr segir stofnað af Haraldi Þóri Björnssyni árið 2009 en Joel Kemp stofnaði félagið ásamt honum. Áður en Haraldur Þór gerði tölvuleikjaiðnaðinn að starfsvettvangi sínum stundaði hann nám í arkitektúr við hinn virta Oxford háskóla. Lockwood einblíndi í upphafi á leiki fyrir PlayStation Home en það gekk ekki sem skyldi og árið 2015 þurfti það að draga saman seglin. Afráðið var að miða frekar á leiki fyrir snjallsíma og fjórði leikur framleiðandans, Avakin Life, hefur slegið í gegn og er nú með ríflega 200 milljónir notenda. Þar af spilar um þriðjungur leikinn reglulega en um 1,4 milljónir manns spila leikinn að jafnaði á degi hverjum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Nottingham í Englandi, en auk þess er það með skrifstofur í Newcastle í heimalandinu. Þá er fyrirtækið einnig með tvær skrifstofur í Evrópu. Eina í Lissabon, höfuðborg Portúgals, og hin er í Vilníus, höfuðborg Litháen.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .