Undirritaður hefur verið samningur á milli Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar f.h. Vaxtarsamnings Eyjafjarðar og þriggja stofnana Háskólans á Akureyri um stjórnun og skipulagningu þriggja af fjórum klösum í Vaxtarsamningi Eyjafjarðar.

Matvælasetur Háskólans á Akureyri mun taka að sér umsjón með matvælaklasa. Arnheiður Eyþórsdóttir hefur verið ráðin til starfans en forstöðumaður Matvælaseturs Háskólans á Akureyri mun m.a. einnig starfa að þessum málum. Arnheiður lauk B.Sc. í Matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1981. Síðan þá hefur hún aflað sér mikillar reynslu í matvælaiðnaði í Eyjafirði í gegnum störf hjá matvæla- og matvælatengdum fyrirtækjum á svæðinu.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri mun taka að sér störf er snúa að mennta- og rannsóknaklasa og mun Björk Sigurgeirsdóttir sjá um þau störf. Björk lauk M.Sc. gráðu í árangursstjórnun frá Arhus School of Business árið 2004 og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2004. Björk hefur starfað hjá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri síðan 2004 en einnig starfaði hún þar með námi árin 2000-2002. Björk sá um rekstur fyrirtækis í Flórída árin 1992-1999.

Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri mun sjá um störf er snúa að heilbrigðisklasa. Bjarni Jónasson hefur verið ráðinn forstöðumaður Heilbrigðisvísindastofnunar og mun hann sjá um störf í Heilbrigðisklasanum. Bjarni lauk B.Sc. gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Frá þeim tíma hefur Bjarni starfað við ýmis störf og var m.a. á árunum 1988-2001 framkvæmdastjóri Skinnaiðnaðar. Frá miðju ári 2003 hefur Bjarni starfað sem rekstrarráðgjafi hjá IMG Ráðgjöf þar sem hans sérsvið hafa verið stefnumótun, samhæft árangursmat, rekstrarhagræðing, gæðastjórnun og rekstrar- og stjórnunarúttektir.

Enn er óráðið í starf fyrir ferðamálaklasa en Ferðamálsetur Íslands og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi munu hafa yfirumsjón með störfum í klasanum.

Allir starfsmennirnir munu hafa starfsaðstöðu hjá sínum stofnunum hjá Háskólanum á Akureyri.