Seðlabankinn tilkynnir stýrivaxtaákvörðun sína næstkomandi miðvikudag samhliða útgáfu Peningamála 4/2011 en í Peningamálum verður að finna endurskoðaða hagspá bankans.

Yfirleitt er ástæða til þess að fylgjast einkar vel með vaxtaákvörðunum þeim sem kynntar eru samhliða útgáfu Peningamála enda taka þær mið af nýjustu spám bankans og gefa einnig vísbendingu um vaxtaþróun fram að næstu spágerð. Nærtækasta dæmið um þetta er síðasta vaxtaákvörðun og þau skilaboð sem seðlabankastjóri hafði gefið í aðdraganda hennar, þ.e. að þrátt fyrir að þjóðhagsreikningar sýndu aðra mynd af stöðu hagkerfisins en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í uppfærðri hagspá ágústmánaðar myndi peningastefnunefnd ekki víkja af hinum markaða vaxtaferli í bili.

Óvissa um niðurstöðuna

Erfitt getur reynst að spá fyrir um niðurstöðu peningastefnunefndar en þá íþrótt iðka greiningardeildir fjármálafyrirtækjanna þó í hvert sinn, með misjöfnum árangri. Lítum aðeins á spár greiningardeildanna, að Arion banka undanskildum en þar á bæ eru menn enn að vega og meta.

IFS greining er eina greiningardeildin sem formlega hefur birt stýrivaxtaspá og spáir fyrirtækið óbreyttum stýrivöxtum. Þessa spá rökstyðja hagfræðingar IFS með því að verðbólguhorfur hafi batnað auk þess sem enn sé mikill slaki í hagkerfinu.

Í svipaðan streng tekur hagfræðideild Landsbankans en Daníel Svavarsson, forstöðumaður, segir í samtali við Viðskiptablaðið að bankinn telji verðbólguna verða seinna á ferðinni en áður hafði verið gert ráð fyrir og að auk þess gæti hún orðið lægri. Landsbankinn spáir því óbreyttum stýrivöxtum. Í Morgunkorni Íslandsbanka fyrr í vikunni kom fram að greining bankans telji Seðlabankann muni lækka verðbólguspá sína þannig að hún nálgist spá Íslandsbanka. Af þessu má álykta að Íslandsbanki spái óbreyttum stýrivöxtum. Þetta staðfestir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka.