Stefna Seðlabanka Íslands, sem hefur það að markmiði að halda ársverðbólgu sem næst 2,5% og notar fyrst og fremst stýrivexti til að ná því markmiði, hefur verið gagnrýnd allt frá því hún var tekin upp í mars árið 2001. Gagnrýnisraddir við síðustu ákvörðun voru háværar. Þær eru ekki þær fyrstu sem heyrast vegna hárra stýrivaxta, og að öllum líkindum ekki þær síðustu. Flökt krónunnar hefur verið mikið undanfarinn áratug og Seðlabankanum sjaldnast tekist að halda verðbólgunni innan skekkjumarka. Eftir síðustu sveiflu liggur krónan nú á gjörgæslu, innan um gjaldeyrishöft sem hafa það að markmiði að halda genginu stöðugu.

Jón Helgi Egilsson, verkfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands, þar sem hann stundar doktorsnám í peningamálahagfræði, hefur fært fyrir því rök að vaxtastefna Seðlabankans feli beinlínis í sér gjaldeyrishrun, líkt og varð hér á árinu 2008.

Hærri vextir auka þenslu

„Hugsunin er sú að með vaxtahækkun náist tvennt fram. Annars vegar að slá á lántöku innanlands og hins vegar að styrkja gengið til skamms tíma,“ segir Jón Helgi. Í gagnrýni sinni vísar hann meðal annars í rannsóknir argentíska hagfræðingsins Guillermo Calvo, sem kennir við Columbia háskóla í Bandaríkjunum. Calvo kom fram með rannsóknir sínar í kjölfar Asíukrísunnar á 10. áratugnum, og byggir þær einnig á gjaldeyrishremmingum ríkja í Suður-Ameríku.

„Áhrifin af sterkara gengi eru mismunandi eftir eðli hagkerfa. Almenna kenningin er sú að með sterkara gengi verður innflutningur ódýrari sem beinir eftirspurn úr landi. Innlendir aðilar kaupa frekar innfluttar vörur og spurn eftir innlendri framleiðslu minnkar. Þannig er slegið á þenslu. Calvo benti hins vegar á að þessi áhrif koma helst fram í hagkerfum þar sem framleiðsla er að stórum hluta í samkeppni við innflutning. Í einhæfari hagkerfum eru áhrifin af styrkingu gengis allt önnur og oft þveröfug. Það er eitt af því sem menn lærðu af Asíukreppunni á tíunda áratugnum og hruni gjaldmiðla í Suður-Ameríku,“ segir Jón Helgi.

Hann tekur sem dæmi að í bandaríska hagkerfinu leiði sterkara gengi til aukinnar eftirspurnar eftir innfluttum bílum. Það myndi slá á þenslu í bandarískum bílaiðnaði. En í ríkjum sem ekki framleiða bíla, líkt og á Íslandi, leiðir styrkingin eingöngu til fleiri innfluttra bíla. Fleiri innfluttir bílar ýta undir þenslu í stoðgeirum, eins og bílasölu og bílaleigu. Þannig getur þenslan í verslun og þjónustu aukist í einhæfari hagkerfum við vaxtahækkun í stað þess að hún minnki. Ef of sterku gengi er viðhaldið, t.d. með ítrekuðum vaxtahækkunum, þá myndast nýtt jafnvægi með ofvöxnum stoðgreinum, s.s. verslun og þjónustu, á kostnað útflutningsgreina. „Gallinn við þetta jafnvægi er að það er ósjálfbært, það er tekið að láni og mun á endanum leiðréttast.“

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.