Æfingar yfir landi og sjó er einn mikilvægasti þáttur í starfi þyrluáhafna Landhelgisgæslunnar og slíka æfingar fara fram nokkrum sinnum í viku við ólíkar aðstæður. Hvert flugtak, hver lending og hver hífing telur í reynslubanka áhafnarmeðlima en auk þess er reynt á hina ýmsu þætti sem koma inn á getu þyrlunnar og þau tæki sem hún er útbúin.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins slóst í för með þyrlusveitinni í reglubundna æfingu nýlega en sérstakt fylgirit um flug fylgdi útgáfu Viðskiptablaðsins í síðustu viku þar sem nánar var fjallað um þessa æfingu og fjölmargt annað sem tengist flugi.

Í þessu tilviki var flogið suður með sjó til móts við v/s Ægi sem lág fyrir utan Keflavík og æfa þar hífingar úr skipinu, úr björgunarbát og úr hafi.

Það eru þessar æfingar sem gera það að verkum að hægt er að bjarga mönnum úr sjávarháska við erfiðar aðstæður, ná í slasaða sjómenn í vondum veðrum, ná í slasað fólk af hálendi og svo mætti lengi áfram telja.

Æfingin fer í stuttu máli þannig fram að þegar komið er að varðskipinu er tengilína látin síga niður að skipinu. Í kjölfarið fer sigmaður niður í skipið, á eftir honum koma sjúkrabörur og loks læknir þyrlunnar (enginn læknir var með í umræddri æfingu þannig að blaðamaður tók hans stað).

Allir eru hífðir aftur upp og í kjölfarið er flogið að björgunarbát þar sem búið er að koma fyrir tveimur dúkkum í fullri líkamsþyngd sem hífðar eru upp. Það er þó tilfallandi hvort notaðar eru dúkkur eða bátsmenn af varðskipunum. Þegar því er lokið eru tveir menn hífðir upp úr sjó. Eftir það gera flugmenn þyrlunnar prófun á staðsetningarbúnaði hennar, sjálfstýringu eða öðru sem viðkomur tæknibúnaði þyrlunnar.

Þeir Benóný Ásgrímsson flugstjóri, Lárus Helgi Kristjánsson flugmaður, Sverrir Andreassen flugvirki/spilmaður, og Thorben Jósef Lund stýrimaður/sigmaður skipa áhöfn dagsins.