Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, óttast það ekki að hugsanlegir kaupendur í Eimskip, sem að öllum líkindum verður skráð á markað í lok árs, reyni að nota stera sjóðsstöðu félagsins í eitthvað annað en þágu félagsins.

Í viðtali við VB Sjónvarp fjallar Gylfi um uppgjör félagsins, komandi skráningu á markað auk þess sem hann svarar spurningum um sjóðsstöðu félagsins og mögulega notkun þeirra fjárhæða sem til eru.

Eins og fram kom í gær kynnti Eimskip rekstraruppgjör sitt fyrir fyrri hluta þessa árs. Rekstrarhagnaður félagsins nam á tímabilinu um 19 milljónum evra (eða um 2,9 mö.kr. á núv.gengi), samanborið við 17,9 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður eftir skatta fyrir fyrstu sex mánuði ársins nam 8 milljónum evra (um 1,2 mö.kr.), samanborið við 7,5 milljónir evra í fyrra.

Það sem vekur athygli er að eiginfjárhlutfallið er 61,6% í lok tímabilsins og handbært fé nam 27,2 milljónum evra í lok júní 2012 og hafði lækkað um 16,3 milljónir evra frá árslokum 2011, einkum vegna fjárfestinga í skipum. Þetta eru um 4,2 milljarðar króna á núverandi gengi en þar af er um 3,5 milljarðar króna í lausafé.