RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags og efnahagsmál, hélt í morgun fund um stöðu efnahagslegs frelsis á Íslandi. Þar flutti kanadíski hagfræðingurinn Dr. Michael Walker, stofnandi Fraser stofnunarinnar í Kanada, fyrirlestur um stöðu Íslands en tilefnið er útgáfa hinnar árlegu samanburðarskýrslu um efnahagslegt frelsi þjóða, hinnar svonefndu Frelsisvísitölu, sem Fraser stofnunin lætur reikna út ár hvert.

Walker lenti þó í því að týna vegabréfi sínu á leiðinni til Íslands og fékk því ekki að fljúga hingað til lands eins og til stóð. Hann hélt því fyrirlestur sinn í gegnum Skype og svaraði spurningum með sama hætti í lok fundarins.

Eftir að Walker hafði lokið erindi sínu flutti Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA og formaður stjórnar Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, stutt erindi um niðurstöður.

VB Sjónvarp ræddi við Birgi Tjörva Pétursson, lögmann og framkvæmdastjóra RSE, og Hannes H. Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, eftir fundinn.